Loðnuvertíðin virðist vera á lokametrunum

Hálfdan Hálfdanarson, skipstjórinn á Berki NK, segir loðnuvertíðina líklega á …
Hálfdan Hálfdanarson, skipstjórinn á Berki NK, segir loðnuvertíðina líklega á lokametrunum. mbl.is/Börkur Kjartansson

Yfir 20 ís­lensk og fær­eysk loðnu­skip voru að veiðum suður af Her­dís­ar­vík á Reykja­nesi síðdeg­is í gær. Dauft hef­ur verið yfir veiðum síðustu daga og loka­hljóð komið í skip­stjóra. Íslensku skip­in eru búin að landa tæp­um 510 þúsund tonn­um af 685 þúsund tonna kvóta á stærstu vertíð í mörg ár.

Á heimasíðu Síld­ar­vinnsl­unn­ar í Nes­kaupstað er spjallað við þrjá skip­stjóra. Haft er eft­ir Sturlu Þórðar­syni, skip­stjóra á Beiti NK, að afar lítið sé að sjá af loðnu, en þeir voru út af Grinda­vík „og það er ekk­ert að frétta,“ var haft eft­ir Sturlu.

Hálf­dan Hálf­dan­ar­son, skip­stjóri á Berki NK, tók í sama streng. „Við erum bún­ir að berja upp ein­hver 250 tonn á fjór­um dög­um. Mér sýn­ist þetta bara vera búið þó einn og einn bát­ur hitti á torfu sem gef­ur dá­lítið. Nú er þetta bara þrjósku­keppni, menn þrjósk­ast við í þeirri von að eitt­hvað birt­ist og þá binda menn helst von­ir við vestang­öngu. En sú von hef­ur ekki ræst hingað til,“ seg­ir Hálf­dan.

Run­ólf­ur Run­ólfs­son, skip­stjóri á Bjarna Ólafs­syni AK, talaði á svipuðum nót­um: „Hér er keyrt um fram og til baka og nán­ast all­ur flot­inn er á þess­um slóðum. Það er væg­ast sagt komið loka­hljóð í þetta,“ sagði Run­ólf­ur.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: