Loðnuvertíðin virðist vera á lokametrunum

Hálfdan Hálfdanarson, skipstjórinn á Berki NK, segir loðnuvertíðina líklega á …
Hálfdan Hálfdanarson, skipstjórinn á Berki NK, segir loðnuvertíðina líklega á lokametrunum. mbl.is/Börkur Kjartansson

Yfir 20 íslensk og færeysk loðnuskip voru að veiðum suður af Herdísarvík á Reykjanesi síðdegis í gær. Dauft hefur verið yfir veiðum síðustu daga og lokahljóð komið í skipstjóra. Íslensku skipin eru búin að landa tæpum 510 þúsund tonnum af 685 þúsund tonna kvóta á stærstu vertíð í mörg ár.

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er spjallað við þrjá skipstjóra. Haft er eftir Sturlu Þórðarsyni, skipstjóra á Beiti NK, að afar lítið sé að sjá af loðnu, en þeir voru út af Grindavík „og það er ekkert að frétta,“ var haft eftir Sturlu.

Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki NK, tók í sama streng. „Við erum búnir að berja upp einhver 250 tonn á fjórum dögum. Mér sýnist þetta bara vera búið þó einn og einn bátur hitti á torfu sem gefur dálítið. Nú er þetta bara þrjóskukeppni, menn þrjóskast við í þeirri von að eitthvað birtist og þá binda menn helst vonir við vestangöngu. En sú von hefur ekki ræst hingað til,“ segir Hálfdan.

Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK, talaði á svipuðum nótum: „Hér er keyrt um fram og til baka og nánast allur flotinn er á þessum slóðum. Það er vægast sagt komið lokahljóð í þetta,“ sagði Runólfur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: