Þeir sem eru á leið til Rómar á Ítalíu á næstu dögum ættu ekki að láta framhjá sér fara að fara í óperuna. Verið er að sýna hina margfrægu óperu eftir Puccini, Turandot, sem þekktust er fyrir lagið Nessun Dorma. Það sem meira er þá er sviðshönnuður/listrænn stjórnandi sýningarinnar Ai Weiwei. Þetta er í fyrsta skipti sem Ai Weiwei tekur að sér verkefni í óperuheiminum.
Weiwei er þekktur fyrir mjög stórar innsetningar og gjörninga og ljóst er að þessi uppfærsla Turandot verður mikið sjónarspil. Sýningar standa til loka mars þannig að áhugasamir þurfa að hafa hraðar hendur ef þeir ætla að upplifa herlegheitin.
Að sögn Ai Weiwei hefur uppfærslan sterka tilvísun til atburða nútímans. Hann segir að þetta augnablik í nútímanum sé tækifæri fyrir listamenn, sem eru á lífi, til að láta í sér heyra og standa vörð um friðinn.