Búrhvalshræ sem rak á land við Bessastaði í Hrútafirði 18. mars var loksins dregin á haf út síðastliðna helgi með aðstoð Landhelgisgæslunnar.
Fram kemur í færslu á vef Landhelgisgæslunnar að varðskipið Freyja hafi verið send á vettvang. Sendir voru tveir léttbátar frá skipinu til að kanna aðstæður umhverfis hið 15 metra búrhvalshræ.
„Hvalurinn var nánast á þurru og á meðan beðið var flóðs voru taugar settar í sporð dýrsins. Nýta varð léttbáta skipsins til að toga dýrið út þar sem ekki reyndist unnt að koma Freyju nálægt landi sökum grynninga. Síðdegis á laugardag losnaði dýrið úr fjörunni og var það dregið að varðskipinu Freyju og tengt dráttartaug,“ segir í færslunni.
Hræið var dregið um 30 sjómílur norður af Horni þar sem búrhvalnum var sleppt utan við sjávarfallastrauma.
Landhelgisgæslan hefur birt myndir af aðgerðum sínum.