Aðalfundur Síldarvinnslunnar hf. samþykkti að arðgreiðsla á árinu 2022 vegna rekstrarársins 2021 verði 2,01 krónur á hlut eða 3,4 milljarðar króna og verður arðurinn greiddur 13. apríl, að því er fram kemur í niðurstöðum aðalfundarins sem birtar hafa verið á vef félagsins.
Fram kemur að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hafi á aðalfundi Síldarvinnslunnar verið endurkjörinn í stjórn félagsins og mun hann áfram gegna hlutverki stjórnarformanns. Auk Þorsteins voru Anna Guðmundsdóttir, Baldur Már Helgason, Björk Þórarinsdóttir og Guðmundur Rafnkell Gíslason kjörin í stjórn félagsins.
Stjórnin, sem uppfyllir ákvæði laga og samþykkta félagsins um kynjahlutfall, var sjálfkjörin þar sem frambjóðendur voru jafnmargir og kjósa skyldi.