Viðar neitar ásökunum stjórnar Eflingar

Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar.

Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, neitar því alfarið að hafa farið gegn starfsskyldum sínum og heimildum í starfi sínu hjá stéttarfélaginu.

„Þessar yfirlýsingar stjórnar Eflingar og hins keypta lögmanns Odds Ástráðssonar um mín störf eru ekkert nema innihaldslaus og ómarktækur rógburður,“ segir í yfirlýsingu Viðars vegna málsins.

Segir ályktunina „samsuðu“ upp úr úttektinni

Fyrr í dag birti stjórn Eflingar á vef sínum ályktun vegna lögfræðilegrar úttektar sem hún lét gera á viðskiptum félagsins við Sigur vefstofu ehf. á árunum 2018 til 2021.

Í ályktuninni segir að helstu niðurstöður útektarinnar séu þær að ákvarðanir um samningssamband félagsins við Sigur vefstofu ehf., umfang þess og kostnað, hafi ekki verið bornar undir stjórn félagsins með réttum hætti. Með því hafi fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins „farið gegn starfsskyldum sínum og heimildum með alvarlegum hætti“.

Í yfirlýsingu sinni vegna málsins segir Viðar ályktunina vera „samsuðu“ upp úr úttekt lögmannsins sem sá um hana, og að í henni sé notað „mátulega óljóst orðalag“ til að gera hann og hans störf „tortryggileg“.

Hefur ekki fengið að sjá úttektina sjálfur

Þá segir hann stjórn Eflingar ekki hafa afhent sér umdrædda úttekt og hann hafi aldrei fengið að sjá hana. Hafi það verið gert til að tryggja að hann geti engum eðlilegum vörnum haldið uppi fyrir mannorð sitt og starfsheiður.

„Ég vissi nákvæmlega hvernig þessi atburðarás yrði, enda hefur sömu aðferðum verið beitt ítrekað af fráfarandi formanni og stuðningsmönnum hennar í stjórn Eflingar, t.a.m. við gerð vinnustaðaúttektar Lífs og sálar og við leka á gögnum úr launabókhaldi.

Ég neita því alfarið að hafa á nokkurn hátt "farið gegn starfsskyldum mínum og heimildum" í starfi mínu sem framkvæmdastjóri Eflingar.“

mbl.is