Skelfilegt ef verð verði eins og í fyrra

Jón Tómas Svansson gerir út bátinn Norðurljós NS-40 og kveðst …
Jón Tómas Svansson gerir út bátinn Norðurljós NS-40 og kveðst óttast að verð á grásleppuhrognum fari lækkandi eftir því sem líður á vertíðina. Samsett mynd

Marg­ir grá­sleppu­sjó­menn eru ugg­andi yfir því verði sem verður í boði fyr­ir hrogn á vertíðinni. Mikið var fram­leitt af hrogn­um í fyrra, sem gæti haft áhrif á verðið í ár, en nokk­ur óvissa er um hvað það verður. Óviss­an er ekki aðeins um verð, held­ur einnig um hvert magnið verður. Þá er ekki leng­ur markaður fyr­ir hvelju grá­slepp­unn­ar í Kína.

Jón Tóm­as Svans­son, sem rær frá Bakkaf­irði á báti sín­um Norður­ljós NS 40, byrjaði róðra 21. mars, dag­inn eft­ir að vertíð hófst. Hann seg­ir að fyrst í stað hafi komið tals­vert af þorski í net­in, en eft­ir að þeir færðu sig grynnra hafi þorskafli minnkað og hærra hlut­fall verið af grá­sleppu. Ekk­ert mok hafi verið í fyrstu róðrun­um, en afli þó ásætt­an­leg­ur.

Afl­ann hafa þeir selt á markaði frá upp­hafi vertíðar og fengið til jafnaðar 300 krón­ur fyr­ir kíló af heilli grá­sleppu. Jón Tóm­as seg­ir að það sé ágætt verð ef eitt­hvað fisk­ist, en reikn­ar með að verðið sé aðeins tíma­bundið meðan verið sé að fram­leiða upp í nokkra minni samn­inga. Hann ótt­ast að verðið lækki veru­lega á næst­unni. Því miður hafi of mikið verið fram­leitt í fyrra og þá hefði átt að stöðva veiðar mun fyrr en gert var.

Mynd/​mbl.is

„Þetta var slæmt í fyrra“

Jón Tóm­as reikn­ar með að selja afl­ann til Brims á Vopnafirði þegar þeir fara af stað í næstu viku og bíður fregna af því hvað þeir hyggj­ast bjóða í hrogn­in. „Í lok vertíðar í fyrra voru boðnar 135 krón­ur fyr­ir kílóið. Ætli menn að halda áfram á þeim nót­um væru það skelfi­leg tíðindi fyr­ir grá­sleppu­sjó­menn. Þetta var slæmt í fyrra og síðan hafa öll aðföng hækkað mikið og út­gerðar­kostnaður er ör­ugg­lega 20% hærri en í fyrra,“ seg­ir Jón Tóm­as.

Hann býr á Vopnafirði, en rær frá Bakkaf­irði þaðan sem styttra er á miðin við sunn­an­vert Langa­nes. Eng­in frá­tök hafi verið vegna veðurs og þeir rói yf­ir­leitt ann­an hvern dag.

Margra nátta og þaraflækja

„Í gamla daga þótti ekk­ert til­töku­mál að draga þetta þriggja nátta upp í viku gam­alt. Þá var maður að rúlla á und­an sér upp­snú­inni drullu og þaraflækju all­an tím­ann. Nú er þetta miklu þægi­legra og frí ann­an hvern dag,“ seg­ir Jón Tóm­as. Þeir eru með rúm­lega 120 net og lögn­in er sam­tals yfir sjö kíló­metr­ar.“

Jón Tóm­as sinn­ir út­gerðinni all­an árs­ins hring og að grá­sleppu­vertíð lok­inni snýr hann sér að strand­veiðum. Hann seg­ir lyk­il­atriði svo út­gerðin skili ein­hverju að sjá um alla vinnu og viðhald sjálf­ur. Sama hvort um sé að ræða að fella net, sjá um viðhald á bát og tækj­um eða gera og græja það annað sem þurfi. „Ég skil ekki hvernig menn geta gert út og alltaf verið með verk­stæðis­menn í vinnu við að halda þessu gang­andi.“

Heild­arafli jókst um 40%

Þrátt fyr­ir met­vertíð í afla á síðasta ári skiluðu grá­sleppu­hrogn mun minna út­flutn­ings­verðmæti en árið áður. Alls nam heild­ar­veiði síðasta árs um­reiknað til hrogna 14.200 tunn­um og hef­ur ekki verið meiri í ára­tug. Afurðirn­ar, fros­in grá­sleppa, hrogn og kaví­ar skiluðu 1.916 millj­ón­um í út­flutn­ings­tekj­ur, en nefna má að verðmæt­in reiknuð á nú­v­irði voru þrír millj­arðar árið 2019.

Í fyrra jókst heild­arafli um 40% frá ár­inu 2020, sem þó var yfir meðaltali síðustu tíu ára. Magnið sem barst á land í fyrra hafði áhrif til verðlækk­un­ar er leið á vertíðina. Marg­ir bættu sér upp verðlækk­un með því að veiða mikið og bjarga þannig af­kom­unni.

Örn Páls­son, fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­bands smá­báta­eig­enda, seg­ir að nú sé hefðbund­inn markaður með daufara móti þar sem fram­leiðend­ur kaví­ars eigi tals­vert af birgðum. Verði fram­boð hins veg­ar tak­markað megi gera ráð fyr­ir ásætt­an­legu verði, því ljóst sé að all­ir verði að tryggja sér hrogn fyr­ir næstu tólf mánuði.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátasjómanna.
Örn Páls­son, fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­bands smá­báta­sjó­manna. mbl.is/​Golli

Færri bát­ar á veiðum

Á þriðju­dag höfðu 20 grá­sleppu­bát­ar landað alls 113 tonn­um, en 18 á sama tíma í fyrra. Örn seg­ir afla á hverja lönd­un vera tæp­um þriðjungi minni í ár en á met­vertíðinni í fyrra.

Veiðar á grá­sleppu eru bundn­ar leyf­um og eru slík leyfi nú um 400. Heim­ilt er að veiða í ákveðinn daga­fjölda og þegar hon­um er náð er hægt að hefja veiðar á nýju leyfi, en nokk­ur dæmi eru um að út­gerðar­menn séu með tvo báta á sín­um veg­um. Bát­um á grá­sleppu­veiðum hef­ur fækkað síðustu ár. Voru 174 í fyrra, en 249 árið 2019.

Ekki er leng­ur markaður fyr­ir hvelju grá­slepp­unn­ar, en í nokk­ur ár fékkst ágætt verð fyr­ir hana í Kína. Nú, eins og á síðasta ári, er heim­ilt að henda hvelj­unni aft­ur í sjó­inn. Þegar best lét 2015 skilaði hvelj­an á nú­v­irði alls 900 millj­ón­um króna í út­flutn­ings­verðmæti.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: