„Dagurinn í dag var töfrum líkastur,“ skrifaði söngkonan Rita Ora við myndafærslu sem hún deildi á Instagram nýverið. Á myndunum má sjá þær Ritu Ora og fyrirsætuna Kate Moss leika lausum hala á sólarströnd í Utah-ríki í Bandaríkjunum.
Skvísurnar Rita Ora og Kate Moss hafa lengi verið nánar vinkonur. Hafa þær stundum gefið aðdáendum sínum innsýn inn í vinskapinn og þær stundir sem þær hafa varið saman. Fyrr í vikunni nutu þær lífsins á ströndinni og fóru meðal annars í bátstúr á milli þess sem þær skiptust á að mynda hvor aðra. Fréttamiðillinn Daily Mail greindi frá.
Á Instagram-reikningi Ritu Ora eru fjölmargar myndir af sólstrandarferðalaginu en þær stöllur lýstu upp umhverfið með nærveru sinni og litu báðar mjög vel út. Ora klæddist glæsilegum gulum og bleikum kjól við eyðimerkursvæðið í Utah þar sem hún stillti sér upp eins og henni einni er lagið. Moss var ekki síður flott en hún klæddist sundfatnaði og var með grænleita slá yfir sér. Ekki var annað að sjá en að hamingjan hafi skinið úr andliti hennar.
Rita Ora hefur varið miklum tíma í Ástralíu síðustu vikur og mánuði. Þar hefur hún verið viðstödd upptökur á nýrri þáttaröð á sönghæfileikakeppninni The Voice. Þá hefur hún einnig eytt þó nokkrum stundum síðustu misseri lokuð inni í hljóðveri þar sem hún er í miðju framleiðsluferli á sinni þriðju breiðskífu sem er væntanleg innan tíðar.