Viðstaddir ráku upp stór augu þegar hið nýja varðskip Íslendinga, Freyja, kom í fyrsta sinn til heimahafnar í Siglufirði 6. nóvember síðastliðinn.
Grá málningin hafði flagnað af á stórum svæðum á heimsiglingunni og fyrri litur, sá blái, komið í ljós. Ljóst var að mikið hafði farið úrskeiðis þegar skipið var málað úti í Hollandi.
Freyja hefur því verið flekkótt við gæslustörfin undanfarna mánuði.
„Til stendur að mála Freyju í sumar og er unnið að gerð útboðsgagna. Ekki liggur fyrir hvar skipið verður málað en verkið verður boðið út á evrópska efnahagssvæðinu.
Seljandi skipsins verður krafinn um greiðslu kostnaðar við málningu skipsins þar sem um augljós mistök af hans hálfu er að ræða,“ sagði Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar aðspurður.