Almenningi boðið um borð í flaggskip Samherja

Almenningi gefst loksins kostur á að skoða Vilhelm Þorsteinsson EA. …
Almenningi gefst loksins kostur á að skoða Vilhelm Þorsteinsson EA. Skipið er við Oddeyrarbryggju á Akureyri og verður hleypt um borð á morgun. Ljósmynd/Samherji/Þórhallur Jónsson

Almenningi er boðið að stíga um borð í flaggskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA, þar sem það liggur við Oddeyrarbryggju á Akureyri á morgun (laugardag) milli tólf og fjögur síðdegis. Nýsmíði útgerðarinnar kom fyrst til heimahafnar fyrir um ári en vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna kórónuveirufaraldursins var ekki hægt að bjóða áhugasömum um borð.

„Þar sem loðnuvertíð er nýafstaðin og skipið er í heimahöfn, þykir Samherja upplagt að halda upp á eins árs afmælið með því að bjóða almenningi um borð og skoða eitt glæsilegasta og fullkomnasta skip íslenska fiskveiðiflotans,“ segir á vef Samherja.

Vert er að geta þess að skipið er talið hafa sett heimsmet í þegar það landaði, líklega, stærsta loðnufarm sögunnar í Fuglafirði í Færeyjum í janúarlok. Um er að ræða hvorki meira né minna en 3.448 tonn og er óhætt að segja að skipið hafi reynst vel.

Aðbúnaður áhafnar eftirtektarverður

Samningar um smíðina voru undirritaðir 4. september 2018 en þann dag hefðu tvíburarnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinssynir orðið 90 ára. Skipið var smíðað af Karstensen-skipasmíðastöðinni í Danmörku en skrokkurinn var smíðaður í Gdyniu í Póllandi af sama fyrirtæki.

Nýsmíðin leysti af hólmi eldri Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins um síðustu aldamót.

Mesta lengd Vilhelms Þorsteinssonar er 89,07 metrar og er breidd skipsins 16,6 metrar. Skipið er alls 4.140 brúttótonn.

Allur aðbúnaður um borð er sagður eins góður og kostur er eins og myndir sýna, en líklega er betra að sjá herlegheitin með eigin augum. Í skipinu eru klefar fyrir fimmrán manns auk sjúkraklefa. Þá er skipið einstaklega rúmgott og má þar nefna borðsal og tvær setustofur. Um borð er einnig líkamsræktaraðstaða og gufubað fyrir skipverja.

Skipið er glæsilega innréttað.
Skipið er glæsilega innréttað. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson
Þægilegar setustofur skipta sköpum.
Þægilegar setustofur skipta sköpum. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson
Ljósmynd/Þórhallur Jónsson
Nýr Vilhelm Þorsteinsson EA vaktir athygli er hann sigldi inn …
Nýr Vilhelm Þorsteinsson EA vaktir athygli er hann sigldi inn Eyjafjörðin í apríl í fyrra. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson




mbl.is