Stefanía Klara Jóhannsdóttir fermdist 23. maí í fyrra. Hún býr í Snæfellsbæ og fermdist í Ingjaldshólskirkju á Hellissandi. Þegar hún hugsar til baka eru nokkrir hlutir sem koma upp í hugann tengt fermingunni. Hún mælir með því við alla að njóta dagsins og gera sem mest úr honum. Stefanía er skemmtileg stelpa sem spilar á trompet og æfir crossfit. Hún er fjölskyldumanneskja sem hefur gaman af því að vera í kringum fólk og ferðast. Hún lagði mikla vinnu á sig fyrir ferminguna, sér í lagi hvað viðkom fermingarfræðslunni.
„Mér fannst mjög þægilegt að fermast á Ingjaldshól af því að það voru ekki margir í kirkjunni og við vorum bara fjögur sem fermdumst þann dag. Ég var stressuð fyrir deginum og sérstaklega að ganga inn í kirkjuna af því að á fermingaræfingunni klúðruðum við því svo oft. Það gekk allt vel og ég var ánægð að vera fermd af því að ég lagði mikla vinnu í fermingarfræðsluna.“ Hárið á Stefaníu var einstaklega fallegt og fór hún til vinkonu móður sinnar fyrir myndatökuna og síðan á hárgreiðslustofu í Ólafsvík fyrir veisluna. Hún keypti fermingarkjólinn í Gallerí 17. „Systir mín hjálpaði mér að velja kjólinn og tókum við áhættuna að panta hann á netinu. Sem betur fer passaði hann fullkomlega. Svo var ég með sjal sem amma mín átti.“
Fermingarljósmyndirnar voru teknar úti í náttúrunni og voru einstaklega fallegar myndir teknar af Stefaníu meðal annars með hljóðfærið sitt. „Mér fannst þægilegra að vera úti því mér líður vel í náttúrunni. Við tókum myndirnar í Mosfellsbæ, sem er svæði sem ég þekki mig vel á.“ Stefanía á mjög góðar minningar frá fermingunni. „Dagurinn byrjaði á því að ég gerði mig tilbúna fyrir daginn og svo fór mamma með mér á hárgreiðslustofuna. Eftir það fórum við fjölskyldan í kirkjuna og ég fermdist. Eftir athöfnina fórum við heim og gerðum allt tilbúið fyrir veisluna. Við gátum ekki boðið mörgum í veisluna út af kórónuveirufaraldrinum, en allt fólkið sem skiptir mig mestu máli var þar.“
Hvað fékkstu fallegt í fermingargjöf?
„Ég fékk ferð til Berlínar frá mömmu og pabba í fermingargjöf. Við höfum ekki ennþá komist út af kórónuveirunni en við stefnum á að fara á þessu ári.“
Það sem Stefaníu fannst dýrmætast við ferminguna var að deila deginum með fólkinu sínu. „Það sem stóð upp úr á fermingardeginum var að ég hitti alla fjölskylduna, sem var ekki búið að gerast í svolítinn tíma út af kórónuveirunni.
Ef ég mætti ráðleggja þeim sem fermast á þessu ári, þá væri það helst að hugsa ekkert um hvað aðrir eru að gera heldur bara að njóta dagsins, af því hann snýst um þig og engan annan.“