Margrét Kristmannsdóttir, varaformaður Bankasýslu ríkisins, segir formann Bankasýslunnar tala fyrir hönd allra innan stofnunarinnar.
Mbl.is hafði samband við Margréti til að spyrja út í þá gagnrýni sem hafi komið fram undanfarið í tengslum við sölu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka sem fór fram 22. mars. Margrét vildi ekki gefa kost á sér í viðtal en sagði það vinnureglu innan Bankasýslunnar að formaður tali fyrir hönd allra hjá Bankasýslunni.
Bætti hún við að hún og Lárus Blöndal, formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins, séu á sömu blaðsíðu hvað málið varðar. Að sögn Margrétar er því engin óeining á milli þeirra.
Eins og fram hefur komið hefur sala ríkis sins á hlutnum mætt harðri gagnrýni víðs vegar. Hefur Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, til að mynda kallað eftir því að forstjóri og stjórn Bankasýslunnar segi af sér en Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, segist ekki ætla að gera það.
Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, hefur þar að auki gagnrýnt söluna og sagði í samtali við Morgunblaðið að hún hafi ekki verið hlynnt aðferðarfræði sölunnar á bréfunum í Íslandsbanka. Að sögn Lilju liggur ábyrgðin ekki hjá stjórnendum Bankasýslu ríkisins heldur hjá stjórnmálamönnum.