Vill stækka hlutverk ritara og gjaldkera

Ólöf Helga Adolfsdóttir.
Ólöf Helga Adolfsdóttir. Samsett mynd/mbl.is

Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari í stjórn Eflingar, segist ekki gera sér að fullu grein fyrir því hvers vegna Sólveig Anna Jónsdóttir, sem er nýtekin aftur við sem formaður stéttarfélagsins, lagði fram breytingartillögur um að leggja niður embætti ritara og gjaldkera.

Laga­breyt­inga­til­lög­urn­ar má sjá á vef Efl­ing­ar en meðal ann­ars vildi Sólveig að fjár­eiður fé­lags­ins yrðu flutt yfir á stjórn þess. Þá vildi hún einnig að ábyrgð rit­ara myndi al­farið heyra und­ir formann. Þannig yrði formaður sá eini sem mætti und­ir­rita gerðarbæk­ur fé­lags­ins.

Að sögn Ólafar nefndi Sólveig Anna á aðalfundi félagsins um helgina að störf ritara og gjaldkera væru ekki í takt við það sem þau eru samkvæmt lögum og með þessum tillögum vildi hún uppfæra lög félagsins. Ólöf bendir á að ritari Eflingar hafi í langan tíma ekki ritað fundargerðir en hefur þó alltaf borið ábyrgð á því að undirrita fundargerðir með formanni.

Einhverjir voru ósammála þessum tillögum Sólveigar Önnu á fundinum, sem endaði með því að hún dró þær til baka. Á meðal þeirra voru Ólöf sjálf. „Ég var á móti þeim, einfaldlega af því að mér finnst ekki skynsamlegt að aðeins ein manneskja beri ábyrgð á að undirrita fundargerðir. Það er mikilvægt að það séu tveir aðilar,“ segir hún.

Henni hafi ekki heldur litist á breytingartillögur um að ritari myndi ekki undirrita gerðarbækur félagsins, heldur einungis formaður. Hún hafi áhyggjur af því, óháð því hver sé formaður hverju sinni, að tveir aðilar annist ekki undirritunina.

„Án þess að maður ætlar að ætla einhverjum eitthvað illt er alltaf hættan á að ef það er ósætti í stjórninni að þá er mögulega hægt að breyta fundargerðum eftir á,“ segir hún og endurtekur að þarna sé hún að tala almennt um þann sem er formaður hverju sinni.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurð hvað hefði orðið um hennar stöðu sem ritara ef embættið hefði verið lagt niður segir hún að þetta hefði haft áhrif á kosningu ritara eftir eitt ár. Þá hefði ekki verið kosið í embættið.

Ólöf nefnir einnig að ef embættin tvö yrðu lögð niður á einhverjum tímapunkti væri mikilvægt að varaformaður eða annar meðstjórnandi gæti undirritað gerðarbækur.

Líturðu á þessa tillögu Sólveigar Önnu sem einhvers konar atlögu að þér, miðað við þær deilur sem hafa verið innan Eflingar?

Nei, alls ekki, heldur meira sem ekki alveg úthugsaðri pælingu. Ritari og gjaldkeri geta haft mun stærra hlutverk og eiga að gera það.“

Frá verkfallsaðgerðum Eflingar.
Frá verkfallsaðgerðum Eflingar. Ljósmynd/Aðsend

Bætir hún við að „miðað við það sem við höfum lært undanfarið“ ættu hlutverkin að vera stærri. Til dæmis geti gjaldkeri sett sig í ýmis mál á borð við tilboðsgögn og sé þannig í beinni tengingu við „þau stóru verk sem Efling lætur gera fyrir sig og inn í stjórnina“.

Ólöf hefði því viljað stækka hlutverk ritara og gjaldkera í stað þess að leggja embættin niður. Þannig dreifist ábyrgðin, auk þess sem betri samvinna og sátt skapist.

Spurð hvort hún hafi verið ánægð með aðalfundinn segist hún hafa verið ánægð með mætinguna og að fólk með ólíkar skoðanir hafi verið tilbúið til að tjá sig og standa upp. Það sé mikilvægt.

mbl.is