Heita 10 þúsund krónum fyrir hvern sem plokkar

Skagfirska útgerðarfélagið hyggst styrkja starf UMSS um 10 þúsund krónur …
Skagfirska útgerðarfélagið hyggst styrkja starf UMSS um 10 þúsund krónur fyrir hvern einstakling sem tekur þátt í að hreinsa strandlengju Skagafjarðar. Ljósmynd/FISK Seafood/Davíð Már Sigurðsson

FISK Seafood mun styrkja Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) um tíu þúsund krónur fyrir hvern einstakling sem tekur þátt í að fegra strandlengju fjarðarins þann 7. maí næstkomandi.

Greint er frá þessu í tilkynningu á vef útgerðarinnar en þar segir að um sé að ræða sérstakan umhverfisdag FISK Seafood og að markmiðið sé að tína rusl á strandlengjunni á Sauðárkróki, í Varmahlíð og á Hofsósi. Er tínslu lýkur verður þátttakendum boðið veitingar í húsnæði útgerðarinnar á Sauðárkróki.

„Umhverfisdagurinn er samverustund fjölskyldunnar sem hefur það að markmiði að fegra nærumhverfið og styðja við aðildarfélög og deildir innan UMSS. Í ár mun FISK Seafood greiða 10.000 kr. á hvern einstakling sem tekur þátt, inn á reikning aðildafélags/deildar sem þáttakandi óskar,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is