Vilja endursemja Smugusamning við Íslendinga

Á síldveiðum í Smugunni. Norðmenn telja sig ekki fá nóg …
Á síldveiðum í Smugunni. Norðmenn telja sig ekki fá nóg út úr samningum við Íslendinga. mbl.is/Friðþjófur

Samtök norskra útgerðarmanna, Fiskebåt, hafa með bréfi beðið norsk yfirvöld um að endursemja Smugusamninginn svokallaða.

Samningurinn er milli Íslands, Noregs og Rússlands og hafa átt sér stað samningaviðræður á fjögurra ára fresti frá 2002, en fátt bendir til að samningafundir munu eiga sér stað í ár vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Fiskebåt sér hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að Íslendingar og Norðmenn taki upp þau mál sem aðeins snúa að sér, að því er fram kemur á vef samtakanna.

Lagt er til að norsk stjórnvöld fari fram á að norsk skip fái að veiða loðnu í íslenskri lögsögu til fyrsta apríl í stað 15. febrúar eins og nú er, auk þess sem skipunum verði leyft að veiða sunnar en 63°N og án takmarkanna á fjölda skipa í íslenskri lögsögu hverju sinni. Jafnframt að skipunum verði heimilt að nýta troll við loðnuveiðar í íslenskri lögsögu, en nú er þeim aðeins heimilt að nota nót.

Þessar kröfur eru í samræmi við umleitanir norskra útgerðarmanna fyrr í vetur, en norsku loðnuskipunum tókst ekki að veiða þann afla sem þeim var úthlutað.

Þá er í bréfinu farið fram á að norsk skip fái auka 1.500 tonna kvóta í löngu, blálöngu og keilu í Smugunni. Jafnframt verði takmark á veiðar norður fyrir 64°N útvíkkað fyrir öll skip og afnumin fyrir línuveiðar. Vilja norskir útgerðarmenn einnig að heimilaður meðafli verði aukinn um 40% og með því tvöfalda heimilað magn djúpkarfa, lúðu og grálúðu sem meðafla.

„Mikilvægasta athugasemd Fiskebåt við tvíhliðasamkomulags milli Noregs og Íslands er að kvótaskiptin eru í miklu ójafnvægi og hallar verulega á Noreg. Þá er óviðunandi að margar hindranir séu lagðar í veg fyrir veiðar Norðmanna í lögsögu Íslands, á meðan íslensk skip búa við fáar hindranir við veiðar á kvóta sínum í norskri lögsögu,“ segir í bréfi norsku samtakanna.

mbl.is