Eldflaugabeitiskipið Moskva var yfirgefið í flýti eftir að mikill eldur kom upp í vopnageymslum skipsins seint í fyrradag. Skömmu áður sendi loftskeytamaður neyðarkall og óskaði eftir tafarlausri aðstoð. Í fyrstu var talið að skipið myndi sökkva á skömmum tíma en nú hefur Hvíta húsið gefið það út að svo virðist sem reynt hafi verið að draga það til hafnar í Sevastópol á Krímskaga. Var þá eldur að öllum líkindum enn laus um borð. Skipið er nú sagt sokkið. Orsök eru óljós – Úkraínumenn segjast hafa hæft Moskvu með tveimur öflugum skipaflaugum en Rússar gáfu út yfirlýsingu sem þykir benda til einhvers konar óhapps um borð eða vanrækslu. Hvort heldur sem er, þá hefur rússneski sjóherinn með þessu orðið fyrir alvarlegum álitshnekki.
Moskva er af Slava-gerð sovéskra eldflaugabeitiskipa, var fyrsta skip sinnar gerðar og nefndist þá Slava sem íslenska mætti sem dýrð. Skipið fékk síðar nafnið Moskva eftir miklar endurbætur árið 2000. Stríðsjálkurinn var smíðaður í úkraínsku skipasmíðastöðinni Kommúnara í Mykólaív árið 1976 og tekið í herþjónustu sovéska flotans 1983. Árið 1990 var Moskva svo tekin úr þjónustu og tíu árum seinna orðin að krúnudjásni Svartahafsflota Rússlands eftir miklar endurbætur.
Eldflaugabeitiskipið er engin smá smíði, 186 metra langt, 12.500 tonn og getur hraðast siglt á 32 hnútum. Í áhöfn eru um 510 manns, sjóliðar og yfirmenn. Í stuttu máli sagt er skipið þungvopnaður eldflaugaskotpallur sem ráðist getur gegn skotmörkum á hafi, í lofti og á landi. Auk þessa er Moskva útbúin afar þéttu varnarneti, m.a. öflugum 360 gráðu ratsjám og þriggja laga varnarkerfi sem á að tryggja varnir gegn eldflaugum – þ.á.m. þeim sem Úkraínumenn segjast hafa skotið á skipið. Og hafi í raun verið ráðist á Moskvu má velta upp þeirri spurningu hvort varnarkefi rússneska sjóhersins virki ekki sem skyldi eða hvort Moskva hafi í raun verið skotfæralaus og því berskjölduð.
Þegar skipaflaug er skotið að herskipi á borð við Moskvu getur áhöfnin brugðist við með þrennskonar hætti. Fyrstu varnir eru lang- og meðaldrægar gagnflaugar sem skotið er á loft til varnar skipinu. Dugi það ekki eru sex sjálfvirkir CIWS-vélbyssuturnar um borð sem taka við. Þeir geta varið Moskvu frá öllum áttum og skjóta hver um sig 5 þúsund skotum á mínútu. Mynda þannig eins konar kúlnavegg sem eldflaugar eiga afar erfitt með að komast í gegnum. En til þess að þetta allt saman virki þarf vitaskuld skotfæri. Hvort varnarbúnaður Moskvu var skotfæralaus þetta kvöld vitum við auðvitað ekki. Þá segjast Úkraínumenn einnig hafa truflað varnarbúnað skipsins með falsárás dróna og gefa þannig í skyn að áhöfnin um borð í Moskvu hafi ekki séð eldflaugarnar, hún hafi verið of upptekin af drónafluginu. Það er fremur ólíklegt, Moskva á auðveldlega að geta fylgt eftir mörgum skotmörkum í einu enda útbúin minnst fimm ólíkum ratsjám.
Kjarnorkukafbáturinn Kúrsk.
Sjálfir neita Rússar því að Úkraína hafi ráðist á skipið. Bilun eða önnur vandamál orsökuðu að þeirra sögn eld sem svo læsti sig í vopnageymslum skipsins með þeim afleiðingum að minnst tvær öflugar sprengingar urðu. Í kjölfarið yfirgaf áhöfnin skipið. Sé þetta rétt þá er það í samræmi við verklagsreglur sjóherja. Þegar stjórnlaus eldur ríkir í vopnageymslum herskipa er um tvennt að velja; fylla vopnageymslurnar af sjó eða yfirgefa skipið í flýti. Að öðrum kosti er hætta á altjóni bæði skips og áhafnar.
Hvað nákvæmlega gerðist þetta kvöld er ekki með öllu ljóst. Hafi Úkraínumenn hæft Moskvu með tveimur skipaflaugum er raunveruleg stríðsgeta rússneska sjóhersins óljós. Skipið á að geta varist árás sem þessari. Sé ástæðan hins vegar vanræksla eða bilun er geta flotans einnig dregin í efa. Árið 2000 fórst kjarnorkukafbáturinn Kúrsk með allri sinni áhöfn eftir bilun í vopnabúnaði. Þá sprakk tundurskeyti inni í vopnageymslu bátsins. Hvort sagan hafi endurtekið sig um borð í Moskvu er þó enn óljóst.
Meðfylgjandi eru tvær myndir. Sú fyrri sýnir Moskvu en seinni kjarnorkukafbátinn Kúrsk.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.