Allt virðist benda til þess að eldflaugabeitiskipinu Moskvu hafi verið grandað af úkraínskum hersveitum og virðist skipið hafa farist með nær allri sinni áhöfn. Um borð voru að líkindum allt að 510 manns, yfirmenn og sjóliðar. Svo virðist sem einungis 58 hafi komist lífs af, sumir þeirra alvarlega slasaðir. Á meðal hinna látnu er Anton Valeryevich Kuprin skipherra sem sagður er hafa fallið inni í brú skipsins. Hann var 44 ára. Nú er talið að eldflaugabeitiskipið hafi verið með minnst tvær öflugar skipaflaugar um borð þegar það fórst, flaugar sem útbúnar eru kjarnaoddum. Gera má ráð fyrir því að rússneski sjóherinn muni leggja allt kapp á að endurheimta kjarnavopnin svo þau endi ekki í höndunum annarra.
Moskva var á sínum tíma sérstaklega hönnuð til að takast á við flugmóðurskipaflota bandaríska sjóhersins í kalda stríðinu. Og til að eiga möguleika á að sökkva bandarísku flugmóðurskipi í svo gott sem einu skoti var Moskva útbúin afar öflugum stýriflaugum af gerðinni P-1000 Vulkan. Flaugar þessar geta borið kjarnaodd og voru að líkindum tvær slíkar sprengjur um borð í Moskvu þegar hún fórst. Sérfræðingar telja líklegt að kjarnavopnin, séu þau á annað borð í flakinu, séu geymd á sérstökum stað inni í skipinu, staður sem þolir bæði eld og sprengingar. Að auki séu kjarnaoddarnir hannaðir til að springa ekki óviljandi verði þeir fyrir hnjaski. Vopnin séu því örugg sem stendur.
P-1000-skipastýriflaugin er uppfærð og öflugri útgáfa af P-500-flauginni sem fyrst var komið fyrir um borð í sovésku Echo II-kjarnakafbátunum í kalda stríðinu. P-1000 hefur sömu drægni, allt að 800 kílómetrar, en er um tveimur tonnum þyngri. Hámarksflughraði er um 935 metrar á sekúndu. Flaugin var tekin í þjónustu sovéska hersins í desember 1987 og komið fyrir í neðansjávarbátum Norðurflotans árin 1987 til 1993. Er hún sérstaklega hönnuð með það í huga að sökkva flugmóðurskipum Bandaríkjanna í einu höggi.
Vitað er að systurskip Moskvu, hið svonefnda Varyag, er útbúið P-1000-flaugum með kjarnaoddi. Er því talið nær öruggt að hið sama eigi við um Moskvu, skipið sem eitt sinn var flaggskip Svartahafsflota Rússlands. Sé það raunin má gera ráð fyrir tveimur kjarnaoddum einhvers staðar inni í flakinu og er hvor um sig 350 kílótonn að styrkleika.
Meðfylgjandi eru tvær myndir. Fyrri mynd sýnir sýnir hvar P-1000 Vulkan-skipastýriflaug er skotið frá Moskvu. Seinni mynd sýnir Anton Valeryevich Kuprin, skipherra Moskvu, sem fórst ásamt nær allri sinni áhöfn.
Til þess að lesa þessa frétt í fullri lengd þarftu að skrá þig inn.
Nýskráning er ókeypis og án skuldbindingar.