„Mikið sjálfstraust getur verið merki um fáfræði“

Mikilvægt er að gæta fyllsta öryggis í krefjandi starfi á …
Mikilvægt er að gæta fyllsta öryggis í krefjandi starfi á sjó. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Í fjórða veggspjaldi Samgöngustofu sem gefið er út undir merkjum 12 hnúta er fjallað um þá hættu sem getur stafað af ofmati á eigin hæfni.

„Sjómenn hafa náð ótrúlegum árangri í fækkun slysa á undanförnum árum og áratugum. Það er vegna árvekni þeirra, menntunar og hæfni til að starfa við oft hættulegar og erfiðar aðstæður. Aðstæður þar sem minnstu mannlegu mistök eða yfirsjón geta valdið slysi,“ skrifar Samgöngustofa um veggspjaldið á Facebook-síðu sinni.

Gefin eru út veggspjöld í hverjum mánuði þessa árs í samstarfi við fjölda hagaðila til að vekja athygli á mikilvægum öryggisatriðum er varða sjófarendur. Fyrsta spjaldið varpaði athygli á þeirri áhættu sem fylgir áhugaleysi fyrir öryggi, en annað spjaldið fjallaði um kæru- og agaleysi. Það þriðja minnti á mikilvægi fræðslu og þjálfun.

Fjórða forvarnarspjald Samgöngustofu. Nýtt kemur út í hverjum mánuði og …
Fjórða forvarnarspjald Samgöngustofu. Nýtt kemur út í hverjum mánuði og er tilgangurinn að auka öryggi sjófarenda. Mynd/Samgöngustofa

Leita nýrra og betri hugmynda

„Sjálfsöryggi og stefnufesta er vissulega góð en hún verður að grundvallast af opnun huga og hæfninni til að uppfæra og bæta við vitneskjuna sem fyrir er. Að maður sé ætíð tilbúinn að leita nýrra og betri hugmynda og hlusta eftir þeim,“ segir á vef Samgöngustofu um fjórða spjald 12 hnúta-verkefnisins.

„Maður er ekki metinn af því sem maður þykist geta heldur því sem maður getur. Of mikið sjálfstraust getur verið merki um fáfræði og mikilvægast af öllu er að fylgja siglingareglum og leiðbeiningum framleiðanda tiltekinna tækja og áhalda. Gott er að deila hugmyndum og skoðunum með öðrum í áhöfninni og komast þannig að sameiginlegri niðurstöðu um bestu leiðina til að leysa málin,“ segir að lokum.

mbl.is