Sú atburðarás sem leiddi til þess að eldflaugabeitiskipið Moskva sökk á Svartahafi undan ströndum Úkraínu verður skýrari með hverjum deginum. Ljósmynd sem birtist af illa förnu skipinu á páskadag veitir mikilvægar upplýsingar um örlög Moskvu og rennir stoðum undir að skipið hafi verið hæft með skipaflaugum, líkt og Úkraínumenn héldu fram. Engin merki eru þó um að sprenging hafi orðið í skotfærageymslum, líkt og Rússar héldu fram. Nú segist hernaðarsérfræðingur telja að áhöfn Moskvu hafi í raun aldrei vitað af flaugunum fyrr en þær sprengdu sig í gegnum brynvörn skipsins. Og að sjálfvirkir vélbyssuturnar Moskvu, sem jafnframt eru síðasta vörn skipsins, hafi aðeins haft sex sekúndur til að forða altjóni.
Eldflaugabeitiskipið treysti á fjölbreytt og flókin ratsjárkerfi til að sjá í kringum sig, greina hættu, fylgja eftir hugsanlegum skotmörkum og stjórna vopnakerfum sínum. Þannig voru t.a.m. um borð tvær langdrægar þrívíddar ratsjár sem fylgst gátu með bæði loftförum og skipum, ratsjá til siglinga og nokkrar ratsjár sem töluðu við og stjórnuðu ólíkum vopnakerfum um borð, m.a. gagnflaugakerfum sem verja áttu skipið gegn stýriflauga- og loftárás. Og það kerfi, segir sérfræðingur, gat ekki brugðist við á þessum örlagaríka degi.
Úkraínumenn segjast hafa skotið svokölluðum Neptúnusar-flaugum á Moskvu, flaugar sem eru sovéskar í grunninn en uppfærðar af Úkraínumönnum. Neptúnusar-flaugar geta hæft skotmörk í allt að 280 kílómetra fjarlægð. Í tilfelli Moskvu þá var skipið statt 150 kílómetra suður af borginni Ódessu hvar flaugunum var skotið á loft. Í fyrstu rísa flaugarnar mjög hátt en eftir því sem nær dregur skotmarki lækka þær flugið verulega. Gera má ráð fyrir því að flaugarnar séu í um 10 til 15 metra hæð mestan hluta leiðarinnar en lækkar sig svo enn frekar og þá niður í allt að 3 metra flughæð. Þetta gera þær til að forðast ratsjá, gera gagnflaugakerfi ónothæft og loks til að sprengja gat á skotmarkið svo neðarlega að sjór flæðir inn í sárið.
Moskva var útbúin tveimur öflugum 360 gráðu ratsjám til að fylgjast með umferð í kringum sig. Þessar ratsjár eru þó ekki jafn nákvæmar og aðalvopnaratsjá skipsins sem staðsett var framan við þyrluskýli aftarlega á Moskvu. Aðalvopnaratsjáin hafði þó þann galla að vera aðeins með 180 gráðu sýn. Og Úkraínumenn vissu það. Beittu þeir því blekkingarleik í árás sinni. Fólst blekkingin í því að senda árásardróna upp að skipinu sem áhöfnin fylgdist með í aðalvopnaratsjá skipsins. Á sama tíma, utan sjónlínu, nálguðust skipaflaugarnar tvær á um 900 kílómetra hraða.
Mynd þessi sýnir aðalvopnaratsjá Moskvu sem staðsett var framan við þyrluskýli aftarlega á skipinu. Hún hafði einungis 180 gráðu sýn.
Hefði Moskva hins vegar séð Neptúnusar-flaugarnar nálgast í aðalvopnaratsjá sinni þá er ekki víst að skipið hefði getað brugðist við með gagnflaugum. Um borð voru m.a. langdrægar S-300-loftvarnaflaugar sem auðveldlega geta grandað loftförum og eldflaugum. En til þess þurfa flaugarnar að vera í meiri flughæð en 20 til 25 metrum. Neptúnusar-flaugarnar fljúga hins vegar í um 3 til 15 metra hæð mestan hluta leiðar sinnar.
Ef allt um þrýtur er síðasta vörn Moskvu sex sjálfvirkir CIWS-vélbyssuturnar sem skjóta um 5 þúsund skotum á mínútu. Er þeim ætlað að mynda þétt varnarnet af byssukúlum til að stöðva skipaflaugar. Þessir turnar virkjast þegar eldflaug er í 1.500 metra fjarlægð frá skipinu. Þennan dag nálguðust tvær eldflaugar Moskvu á um 900 kílómetra hraða. Það þýðir að vélbyssuturnarnir höfðu sex sekúndur til að granda flaugunum frá því að flaugarnar fóru inn í sjónsvið þeirra. Og líklega brugðust aðeins tveir til þrír turnar við flaugunum sökum þess að hver vélbyssuturn hefur ákveðið skotsvæði.
Af þessu má draga þá ályktun að varnarkerfi Svartahafsflotaflaggskipsins Moskvu hafði einungis sex sekúndur til að verjast. Og líklegast vissi áhöfnin aldrei af hættunni fyrr en vélbyssuturnarnir rufu þögnina sekúndum áður en sprengingar hristu skipið.
Meðfylgjandi eru þrjár myndir. Sú fyrsta sýnir Moskvu eftir árásina, hálfsokkin og illa brennd eftir mikinn eldsvoða og sprengingar um borð. Önnur mynd sýnir aðalvopnaratsjá skipsins, ratsjá sem hafði aðeins 180 gráðu sýn. Og þriðja myndin sýnir einn af sjálfvirku skotturnum skipsins í notkun.
Sjálfvirkur vélbyssuturn Moskvu í notkun. Alls voru sex svona turnar um borð og voru þeir síðasta vörn skipsins.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.