Þórólfur Heiðar Þorsteinsson, lögmaður Bankasýslu ríkisins, segir að framkvæmd á sölu 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í lok mars hafi verið samkvæmt lögum. Fjármálaráðherra þurfti ekki að samþykkja hvert og eitt tilboð sem berst.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í aðsendri grein Þórólfs á Vísi.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á dögunum að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði brotið 4. grein laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Í 4. greininni segir meðal annars að ráðherra taki ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða hafnað.
Þórólfur segir hins vegar að salan hafi verið í samræmi við áðurnefnd lög. Sá lagatexti sem Oddný vísaði til eigi að hans mati ekki við um almennt eða lokað útboð.
„Sú aðferðafræði sem beitt var í útboðinu kemur fram í rökstuddu mati Bankasýslu ríkisins sem sent var ráðherra þann 22. mars og er aðgengilegt á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytis. Þar var óskað eftir samþykki ráðherra um verð og magn en að öðru leyti var óskað eftir umboði hans til úthlutunar eftir tilteknum viðmiðum. Um var að ræða sömu aðferðafræði og beitt var í frumútboði Íslandsbanka á 35,0% eignarhlut sumarið 2021 og sætti ekki sérstakri gagnrýni,“ skrifar Þórólfur.
Ráðherra hafi svarað tillögu Bankasýslunnar á þá leið að fallist væri á hana:
„Þannig veitti hann stofnuninni umboð til að ljúka sölumeðferð í samræmi við rökstudda matið. Þessi aðferðafræði á sér skýra lagastoð um að ekki sé gert ráð fyrir mati á einstaka tilboðum þegar um útboð er að ræða og að ráðherra geti falið stofnuninni að annast endanlegan frágang vegna sölu,“ skrifar Þórólfur að lokum.