Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ákveðið að hefja aftur þjálfun úkraínskra hermanna. Hefur þjálfunin legið niðri síðastliðnar sjö vikur, eða allt frá því að innrásarlið Pútíns Rússlandsforseta hóf sókn sína inn í landið. Auk þessa munu Bandaríkin styðja við bakið á Úkraínu með vopnasendingum og er aðstoðin í heildina metin á um 800 milljón dali. Meðal þeirra vopna sem Úkraínumönnum verða gefin er hin gríðaröfluga Howitzer-stórskotaliðsfallbyssa og mun þetta vera í fyrsta skipti sem Bandaríkin senda annarri þjóð stórskotaliðsfallbyssu sem hernaðaraðstoð. Spennan á milli Rússlands og Vesturlanda mun vafalaust ekki minnka við þessi tíðindi.
Bandaríkin hófu að þjálfa úkraínska herinn skömmu eftir landtöku Rússa á Krímskaga. Hefur Úkraínuher því búið sig undir hernaðarátök við Rússland síðan þá og verið þjálfaður á pari við vestræna heri. Þessi þjálfun hætti við innrás Rússlands en nú hafa Bandaríkin ákveðið að taka hana upp aftur og gefa um leið enn frekar í. Valinn hópur úkraínskra hermanna verður sendur úr landi, hugsanlega til Póllands, hvar hann mun hitta fyrir bandaríska hernaðarsérfræðinga sem veita þeim skyndiþjálfun í notkun á 155 millimetra Howitzer-stórskotaliðsfallbyssu, vopn sem engar hersveitir vilja að beint sé gegn sér í vopnuðum átökum. Fara Úkraínumennirnir svo aftur heim og miðla reynslunni.
Howitzer var fyrst hönnuð árið 1942 sem stórskotaliðsfallbyssa af miðlungs-styrk og fór hún fljótlega í þjónustu Bandaríkjahers. Vopn þetta var m.a. notað á vígvöllum seinna stríðs, Kóreu-stríðsins og Víetnam-stríðsins. Árið 1979 tók Bandaríkjaher í notkun uppfærða útgáfu af Howitzer-byssunni en í grunninn er um sama vopn að ræða. Alls verða 18 svona fallbyssur sendar til Úkraínu frá Bandaríkjunum og munu 40 þúsund fallbyssukúlur fylgja. Alls þarf 11 til að hleypa af hverri byssu og getur kúlan, sem ferðast á um 563 m/s, hæft skotmörk í allt að 14.600 metra fjarlægð. Með þessu vopni má auðveldlega granda óbyrnvörðum ökutækjum og stórskaða bryndreka. Fyrir almenna fótgönguliða er vopnið hreint út sagt skelfilegt.
En fleira er nú í pakka Bandaríkjamanna. Þar verður einnig að finna radartæki af ólíkum toga; yfir 300 eftirlitsdróna; 500 Javelin-bryndrekabana; um 300 brynvarin ökutæki af ýmsum gerðum; 11 sovéskar árásarþyrlur; ómönnuð strandgæslutæki; 30 þúsund hjálma og skotheld vesti; plastsprengiefni; jarðsprengjur og hlífðarbúnað til að verjast efnavopnum og geislavirkni. Sjúkragögn og lyf verða einnig send.
Fyrir Úkraínu er hernaðaraðstoð þessi ómetanleg og líklegt má telja að fleiri ríki Atlantshafsbandalagsins auki vopna- og birgðasendingar sínar á næstu vikum og dögum. Hafa að auki Ástralir ákveðið að senda á annan tug bryntækja til Úkraínu, tæki sem eru af nýjustu gerð og tækni. Fyrir Moskvuvaldið munu sendingarnar auka enn á vanda þeirra í Úkraínu. Þær í bland við hugsanlega skyndiaðild Finnlands að NATO er líklegt til að auka mjög á spennuna milli Rússlands og Vesturlanda. Spenna sem er mikil fyrir.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.