Stjórnarandstaðan gagnrýndi harðlega fundarstjórn Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Þing kemur nú saman í fyrsta sinn síðan 8. apríl en stjórnarandstaðan hafði óskað eftir því að þinghald hæfist í síðustu viku til þess að ræða sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Helga Vala Helgadóttir, þingamaður Samfylkingarinnar, sagði að forseti Alþingis hafi neitað að þingheimur geti fengið að eiga orðastað við fjármála- og efnahagsráðherra, forsætisráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra undir öðrum lið en óundirbúnum fyrirspurnum.
Bætti hún við að sá liður væri mjög takmarkaður.
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, sagði samskipti stjórnarandstöðunnar við forseta vera farsakennd.
Hún sagði að sérstök umræða Pírata sem átti að eiga sér stað á þinginu í dag hafa verið tekin af dagskrá og í stað þess mun fjármála- og efnahagsráðherra flytja munnlega skýrslu.
„Auðvitað ættu allir þrír ráðherrar að gefa munnlega skýrslu fyrir þingið svo við getum átt alvöru samtal um þetta risa risa stóra mál.“
Minntist hún sérstaklega á að Píratar hafi óskað eftir munnlegri skýrslu forsætisráðherra en ekki frá fjármála- og efnahagsráðherra.
Birgir svaraði þingmönnunum og sagði að hann hafi nálgast málið þannig að nægur tími yrði gefinn til þess að ræða málið.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tók undir orð Halldóru og sagði að þing þyrfti að ræða við ráðherranna þrjá. Viðtöl þeirra við fjölmiðla hafa verið of missaga að sögn Loga.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagðist treysta forseta algjörlega til þess að skipuleggja umræðu á þingi innan þingskapana.
„Ég hef fullan skilning á því að þingmenn vilji eiga orðastað við mig um þetta mál og verð að sjálfsögðu við því.“
Sagðist hún vera tilbúin til þess að ræða málið á þingi á morgun.
Þá upplýsti Birgir að hann muni eiga fund með þingflokksformönnum, eftir munnlega skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra, til þess að ræða þinghald framhald dagskrár þings í þessari viku.