Stöðugur straumur kolmunnaskipa til Neskaupstaðar

Tómas Kaárason, skipstjórinn á Beiti, segir áhöfnina í góðu skapi …
Tómas Kaárason, skipstjórinn á Beiti, segir áhöfnina í góðu skapi enda fiskast vel á kolmunnamiðunum. Ljósmynd/Síldarvinnslan

„Héðan er allt gott að frétta. Hér er fín­asta veiði. Við erum núna komn­ir með yfir 2.000 tonn í fjór­um hol­um og erum nú á okk­ar fimmta holi í túrn­um,“ seg­ir Tóm­as Kára­son, skip­stjóri á Beiti NK, um gang kol­munna­veiða á gráa svæðinu suður af Fær­eyj­um í færslu á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar.

„Síðasti sól­ar­hring­ur var mjög góður en þá feng­um við hátt í 1.800 tonn í þrem­ur hol­um. Í fyrrinótt feng­um við 620 tonn, um 600 tonn um há­degi í gær og 540 tonn í nótt. Þetta voru allt stutt hol eða frá sex og upp í níu tíma. Stund­um er dregið mun leng­ur eða allt upp í 16 tíma. Þetta er fín­asti fisk­ur sem fæst hérna, þessi dæmi­gerði göngu­fisk­ur,“ seg­ir Tóm­as.

Hann seg­ir skipið vera á Wy­ville Thomp­son-hrygg og að þar séu flest kol­munna­skip­in um þess­ar mund­ir en einnig eru ein­hverj­ir norðar. „Það verður að segj­ast að þetta lít­ur býsna vel út núna og menn eru kát­ir hér um borð.“

Fram kem­ur í færsl­unni að Börk­ur NK sé einnig á miðunum og að veiðar hafi gengið vel. Bjarni Ólafs­son AK landaði í Nes­kaupstað í gær og er á leiðinni á miðin, en Há­kon EA kom til hafn­ar í Nes­kaupstað í nótt og er unnið að lönd­un. Vil­helm Þor­steins­son EA, sem Sam­herji ger­ir út, er á leiðinni þangað með full­fermi af kol­munna.

mbl.is