Samkvæmt þeim upplýsingum sem fjármála- og efnahagsráðherra bjó yfir í aðdraganda útboðs Bankasýslunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka, var áætlað að kostnaður við söluna yrði um 300 milljónir króna miðað við að söluandvirði yrði um 25 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem hefur að geyma svör við fyrirspurnum fjárlaganefndar Alþingis um meðferð sölunnar. Þar er vísað í bréf sem ráðuneytinu barst frá Bankasýslunni um miðjan janúar, þar sem fjallað var um ráðningu ráðgjafa.
Sem kunnugt er seldi ríkið þó 22,5% hlut í bankanum fyrir um 53 milljarða króna, eða rúmlega tvöfalt það sem áætlað hafði verið í fyrrnefndu bréfi. Áætlað var að söluþóknun yrði um 0,7%-1% af söluandvirði eignarhluta. Miðað við þá tölu má ætla að söluþóknun til söluráðgjafa hafi verið á bilinu 370-530 milljónir króna. Við þetta bætast síðan fasta upphæðir, um 35-45 milljónir króna í kostnað við fjármálaráðgjafa og um 10 milljónir króna í lögfræðikostnað.
Forsvarsmenn Bankasýslunnar hafa áður greint frá því að heildarkostnaður útboðsins hafi verið um og yfir 700 milljónir króna.
Fréttin hefur verið uppfærð og tölur leiðréttar.