Færri á grásleppu en í fyrra

Löndun grásleppu á Húsavík í fyrra. Mun minni afla hefur …
Löndun grásleppu á Húsavík í fyrra. Mun minni afla hefur verið landað á vertíð ársins. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Sókn í grásleppu hefur verið mun minni í ár heldur en á síðustu vertíð og færri bátar stundað veiðar. Afli í róðri hefur sömuleiðis verið mun minni en í fyrra. Aðeins verðið virðist hafa hækkað á milli ára og segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, að hæsta verð sem hann hafi heyrt um í föstum viðskiptum í ár sé 180 krónur fyrir kíló af heilli grásleppu, en algengt verð í fyrra var 130-135 krónur.

Nú eru leyfðir veiðidagar alls 25 og þurfa þeir að vera samfelldir frá fyrsta róðri, en voru 35 í fyrra. Grásleppunefnd LS lagði þennan dagafjölda til við matvælaráðherra vegna minni eftirspurnar og birgða af hrognum frá metvertíðinni í fyrra. Alls hafa 105 bátar landað grásleppu í vor. Um helmingur þeirra hefur lokið vertíð, en um helgina voru 53 með virk leyfi. Á sama tíma í fyrra höfðu 133 bátar landað afla. Skráður meðalafli á bát er nú 14,8 tonn, en var 27,8 tonn á síðasta ári. Grásleppuvertíð byrjar fyrst fyrir norðaustan og norðan land, en færist síðan suður með Vestfjörðum.

Fram að helgi höfðu 444 tonn af heilli grásleppu verið seld á fiskmörkuðum fyrir 177 krónur á kíló að meðaltali. Magnið er minna en í fyrra, en verðið hærra. Fimmtán tonn af grásleppuhrognum hafa verið seld á mörkuðunum fyrir 736 krónur á kíló að meðaltali og er það 47% hærra verð á mörkuðunum heldur en í fyrra þegar verðið fyrir kíló af hrognum var 500 krónur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: