Opinn fundur fjárlaganefndar um sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka hefst klukkan níu. Fulltrúar Bankasýslu ríkisins munu mæta á fundinn.
Fundinn átti að halda síðastliðinn mánudag en á sunnudag bað Bankasýslan um að honum yrði frestað. Við því var orðið og því er fundurinn haldinn í dag.
Fjárlaganefnd hefur óskað eftir svörum við spurningum í 19 töluliðum en séu stafliðir taldir með telja þær á fimmta tug. Er þar spurt meðal annars um hvernig hafi verið staðið að vali söluaðila á hlutabréfum ríkissjóðs í Íslandsbanka, hvers vegna innlendir söluaðilar hafi verið fimm talsins og hvernig samið hafi verið um þóknun til þeirra aðila.