Hvað þýðir „kaupi stærri hlut“

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, og Lárus Blöndal, stjórnarformaður …
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, og Lárus Blöndal, stjórnarformaður stofnunarinnar, sátu fyrir svörum í fjárlaganefnd í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mismunandi skilningur á hugtakinu „kaupi stærri hlut“ í tengslum við sölu á auknum hlut ríkisins í Íslandsbanka í útboði um daginn var eitt af því sem kom í ljós á opnum fundi fjárlaganefndar Alþingis með forsvarsmönnum Bankasýslu ríkisins í morgun.

Þeir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri stofnunarinnar, og Lárus Blöndal, stjórnarformaður hennar, sátu fyrir svörum nefndarinnar, en talsverðrar gagnrýni hefur gætt um framkvæmd útboðsins þegar seldur var 22,5% hlutur í bankanum fyrir um 52 milljarða.

Útboðið var lokað útboð þar sem selja átti fagfjárfestum hluti í bankanum, en eftir að því var lokið vakti m.a. athygli fjöldi lægri tilboða og hvort að það samrýmdist hugmyndum fyrir söluna.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði þá Jón og Lárus út í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra vegna sölunnar, en fyrirkomulag spurninganna var í nokkurskonar hraðspurningaformi.

Mismunandi skilningur settur í hugtakið

Spurði hann hvort rétt væri að í greinargerðinni væri óskað eftir því að hæfir fagfjárfestar keyptu stærri hlut. Sagðist Jón ekki kannast við það, en Björn bætti þá við hvort skilningur þeirra á hugtakinu „stærri hlut“ væri þannig að einstaka kaupendur kaupi stærri hlut. Lárus greip þá inn í og sagði þetta vera dálítið skrítna yfirheyrslu, en Jón svaraði og sagðið „já við getum tekið undir það.“

Björn Leví Gunnarsson á fundinum í morgun.
Björn Leví Gunnarsson á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síðar á fundinum kom Björn aftur inn á þessar vangaveltur og spurði hvort að Bankasýslan bæri ekki ábyrgð á þvi að söluferlið væri í samræmi við ákvörðun ráðherra og svaraði Jón því játandi. Las Björn því næst upp úr greinargerð ráðherra þar sem segir:

„Með tilboðsfyrirkomulagi, líkt og því er almennt beitt, er verð seldra hluta ákveðið með hliðsjón af síðasta dagslokagengi hlutabréfa og er þá veittur lítilsháttar afsláttur frá því. Ástæða þess er sú að verið er að auka framboð bréfa á markaði og óska eftir því að hæfir fagfjárfestar kaupi stærri hlut, þar sem óvissa er um nákvæma þróun dagslokagengis næstu vikur á eftir.“

Impraði hann sérstaklega á hugtakinu „stærri hlut“ og spurði: „Tókuð þið ekkert tillit til þessa minnisblaðs ráðherra um að hæfir fjárfestar væru að kaupa stærri hlut?“

Lárus svaraði þá: „Það að kaupa stærri hlut af bankanum, það er markmiðið.“ Virtist sem svarið kæmi Birni nokkuð á óvart og sagðist hann áðan hafa spurt þá hvort þeir skildu hugtakið „stærri hlut“ þannig að það væri verið að selja einstaka kaupendum stóra hluti. „Nei stærri hlut af bankanum,“ svaraði Jón þá.

„Hraðaspurningar geta verið ruglandi.“

Björn sagði það ekki hafa verið það sem þeir svöruðu áður og bætti Lárus þá við: „Hraðaspurningar geta verið ruglandi.“

Ljóst var að Björn taldi þarna komið að merg málsins, allavega að hluta til. „Áttið þið ykkur á að misskilningurinn er kannski þarna. Að fólk telji að einstaka hluthöfum hafi átt að selja stærri hlut?“ spurði hann án þess að fá mikil svör við þeirri spurningu.

Þekktu ekki félag Benedikts

Annað atriði sem nokkur umræða hefur staðið um og spurt var að nokkrum sinnum á fundinum í morgun var þátttaka föður Bjarna í útboðinu. Björn spurði einnig um þetta atriði og vísaði í fyrri orð tvímenninganna um að Bankasýslan hefði ekki bolmagn til að skoða náið með kaupendur og hverjir væru þar á bakvið. Sagði hann að með einfaldri uppflettingu í fyrirtækjaskrá hefði hann sé að eigandi að félaginu Hafsilfri, sem tók þátt í útboðinu, væri faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson. „Ég geri ráð fyrir að þið þekkið nafnið og fyrirtækið vel.“ Sögðust bæði Lárus og Jón þekkja nafnið en ekki fyrirtækið. „Það er mjög áhugavert,“ sagði þá Björn áður en farið var í næstu spurningu.

mbl.is