Alþjóðlega sjávarútvegssýningin Seafood Expo Global hófst í gær og fer fram í ráðstefnuhölllinni Gran Via í Barselóna á Spáni. Um er að ræða stærstu sýningu í þessari grein á heimsvísu. Um langt skeið var hún haldin í Brussel í Belgíu.
Í tilefni sýningarinnar eru fjöldi íslenskra fyrirtækja með sýningarbásabæði á eigin vegum og í tengslum við íslenska skálan. Gústaf Baldvinsson, framkvæmdastjóri Ice Fresh og Seagold (sölufélaga Samherja), segir í færslu á vef Samherja að á sýningunni gefst tækifæri til að ræða við núverandi viðskiptavini og sömuleiðis stofna til nýrra viðskiptasambanda.
„Þetta mjög stór sýning og hérna eru öll helstu fyrirtækin, hvort sem um er að ræða veiðar, vinnslu eða sölu. Kannski má líkja sýningunni við árshátíð alþjóðlegs sjávarútvegs, þar sem allir mæta. Hallirnar sem hýsa básana eru nokkrar og í raun og veru er ekki hægt að komast yfir að skoða alla sýninguna, þótt viljinn væri fyrir hendi,“ segir Gústaf.
„Básinn okkar er af stærri gerðinni, er vel útbúinn á allan hátt og auðvitað er íslenskur fiskur á boðstólum, sem kom ferskur hingað í gær. Það tekur langan tíma að undirbúa slíka sýningu og er að mörgu að huga. Básinn er á tveimur hæðum, þannig að við getum tekið vel á móti gestum og í næði farið yfir ýmis mál með okkar viðskiptavinum. Við höfum lært það af reynslunni að góður og hnitmiðaður undirbúningur skilar sér í flestum tilvikum.“
Þá segir Gústaf markmiðið ekki endilega að landa samningum. „Heldur er verið að treysta viðskiptasambönd og sömuleiðis stofna til nýrra. Starfsfólk okkar er með bókaða fundi frá morgni til kvölds, þetta er hörku vinna en líka skemmtileg og gefandi. Ég tala nú ekki um þegar loksins er hægt á nýjan leik að halda slíka sýningu að loknum heimsfaraldri.“