„Eigum við ekki heimtingu á því að þeir sem fá allar ítarlegar upplýsingar um málið komi hingað og upplýsi um efasemdir sínar? Hvar liggur ábyrgð þeirra ráðherra sem höndluðu með málið í þessari ráðherranefnd? Að leyna upplýsingum varðar við lög, virðulegur ráðherra.“
Þetta sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, þar sem hún velti upp ábyrgð ráðherra við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Helga Vala benti á að Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefði haft efasemdir í aðdraganda sölunnar og spurði því hvers vegna hún hefði ekki upplýst þingið þegar málið var til umfjöllunar í þingsal.
Lilja sagði gott að fjalla um málið með gagnrýnum hætti en það ætti eftir að skoða málið.
„Ríkisendurskoðun á eftir að skoða málið. Seðlabankinn á að eftir að gera það líka. Ég tel hreinlega ekki að viðeigandi sé að fella dóma fyrr en sú niðurstaða er komin. Það vill líka þannig til að þótt ég telji að ég hafi oft mjög rétt fyrir mér þá hef ég ekki alltaf rétt fyrir mér. Það kann að vera að sú aðferð sem Bankasýslan lagði til, að hún hafi verið rétt,“ sagði ráðherra og hélt áfram:
„Það er líka þannig, háttvirtur þingmaður, að ég tel að það sé ekki verið að leyna upplýsingum þegar maður hefur efasemdir en ég var alveg hreinskilinn með það að ég taldi brýnt að við myndum ræða þessi mál eins og við erum að gera núna og hef ekki hikað við það.“