Þrjátíu og sex ár eru nú liðin frá því að mikil sprenging varð í einum af kjarnaofnum Tsjernobyl í Úkraínu, hinn 26. apríl 1986. Röð mistaka við stjórnun og prófun orkuversins leiddi til slyssins með þeim afleiðingum að gríðarmikið magn geislavirkra efna gaus óhindrað út í andrúmsloftið. Tók alls um níu daga að slökkva eldinn og þurfti til þess þúsundir tonna af sandi og leir sem varpað var frá herþyrlum yfir brennandi ofninn. Fórn björgunarmanna er ólýsanleg, langflestir hlutu þeir grimmileg örlög vegna bráðrar geislaveiki. Bráðdrepandi umhverfi Tsjernobyl minnir á sig á ný nú þegar á áttunda tug rússneskra hermanna berjast fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í Hvíta-Rússlandi. Var þeim sagt að hafast við í Rauðaskógi, einu geislamengaðasta svæði heims, vegna innrásar Pútíns Rússlandsforseta í Úkraínu.
Tsjernobyl-kjarnorkuverið er um 90 kílómetrum norður af Kænugarði og á tímum Sovétríkjanna var bærinn Pripyat næst verinu, í um þriggja kílómetra fjarlægð. Árið 1986 bjuggu þar nærri 50 þúsund manns og var bærinn byggður upp með það í huga að þjónusta verið. Allir innviðir báru af í sovéskum samanburði, var þarna m.a. fullkominn og nútímalegur skemmtigarður, fjöldi verslana sem átti sér aðeins hliðstæðu í sjálfri Moskvu, fyrirtæki, afþreying af ýmsum toga og skólabyggingar. Bærinn var rýmdur daginn eftir slysið mikla og tók það sovéska herinn einungis þrjár og hálfa klukkustund að senda þessa nærri 50 þúsund íbúa í burtu. Til þess voru notaðir 1.200 rútubílar og fylgdi þeim slóð geislunar. Borgin stendur nú auð – minnisvarði um mesta kjarnaslys sögunnar.
Geislun mældist verst fyrstu dagana eftir slysið, í kringum 3.000 til 30.000 röntgen á klukkustund. Skammtur sem nemur 500 röntgen er sagður banvænn fyrir menn á innan við fimm klukkustundum. Slökkviliðsmenn í Pripyat fengu boð um eld í kjarnaverinu laust fyrir klukkan 02:30 aðfaranótt 26. apríl 1986. Fyrstu 14 til að mæta á vettvang hófu að sprauta vatni í átt að kjarnaofni númer fjögur, sem þá stóð opinn inn að kjarna eftir sprengingu. Hluti þessara manna kom sér fyrir ofan á þaki kjarnaofns númer þrjú í nærri 70 metra hæð og sinnti slökkvistarfi þaðan. Enginn þessara manna var búinn undir það mikla verk sem nú var að hefjast. Og tók það þakhópinn ekki nema fáeinar mínútur að finna fyrir einkennum bráðageislunar. Óskað var eftir aðstoð þeirra sem neðar voru og hörfaði þakhópurinn í kjölfarið. Á miðri leið mættust fylkingarnar tvær og gátu þeir í þakhópnum vart gengið óstuddir, réðu ekki við uppköst sín og báru brunasár um allan líkama. Þeir voru allir jarðaðir fáeinum dögum síðar í tveimur kistum, innri kista var úr þykkum sink-málmi en ytri úr hefðbundnum viði.
Myndin er tekin af þaki húss í bænum Pripyat sem er í um 3 kílómetra fjarlægð frá verinu. Bærinn hefur staðið auður frá slysinu mikla. Tsjernobyl sést fyrir miðri mynd í fjarska.
AFP
Hinn 24. febrúar 2022 tók rússneskt innrásarlið yfir stjórn Tsjernobyl. Varð þannig svæði sem geymt hefur verið í bómull í á fjórða áratug skyndilega að fjölförnu hersvæði í miðju árásarstríði Rússlandsforseta. Herflutningabílar, bryndrekar og fótgönguliðar hófu að þyrla upp jarðvegi í svonefndum Rauðaskógi sem liggur á lokuðu bannsvæði í nágrenni versins. Skógurinn fær nafn sitt af ryðrauðum blæ sem tré og annar gróður fékk þegar hann drapst vegna geislunar og liggur mengunin enn í miklum mæli í jarðveginum og gróðri. Geislunin læsti sig svo í skósóla þessara hermanna, hjólbarða ökutækja þeirra og belti bryndreka. Til að bæta gráu ofan á svart var þessum hermönnum skipað að grafa miklar og djúpar skotgrafir í Rauðaskógi og eru vísbendingar þess efnis að þeir hafi einnig fellt og brennt tré til að halda á sér hita. Geislandi jarðvegurinn og eituragnir í reyknum lagðist svo á mennina.
Sex dögum eftir að rússneski herinn kom sér fyrir í og við Rauðaskóg fóru að berast upplýsingar um útbreiddan heilsubrest meðal hermanna. Veikindi sem þóttu benda til bráðageislunar. Voru þá fengnir sjö rútubílar til að flytja veika hermenn undir læknishendur í Hvíta-Rússlandi og sýndu þeir allir einkenni bráðageislunar. Rétt rúmlega viku síðar var greint frá fyrsta dauðsfallinu. Nær útilokað er að Rauðaskógshermennirnir nái heilsu á ný. Þeir sem ekki eru nú þegar látnir munu að líkindum lifa í einhverja mánuði til viðbótar hið mesta. Segja sérfræðingar starfandi í Tsjernobyl-verinu hermenn þessa hafa verið án hlífðarbúnaðar og geislamæla. Sú ákvörðun Moskvuvaldsins að senda þá vanbúna inn í skóginn megi því best lýsa sem aftöku á eigin mönnum.
Eftir að rússneskar sveitir yfirgáfu Tsjernobyl sóttu Úkraínumenn inn í verið á ný. Þar innandyra fundu þeir vísbendingar sem þykja benda til þess að hópur starfsmanna versins hafi verið læstur inni í sprengjuskýli og haldið þar föngnum allan þann tíma sem Rússar réðu yfir svæðinu. Þessi sami hópur var svo fluttur í burtu með innrásarliðinu, hugsanlega sendur til Rússlands. Þá mældist einnig talsverð geislun inni í kjarnaverinu, einungis á þeim hæðum sem vitað er að rússneskir hermenn höfðust við á. Er talið fullvíst að þeir hafi flutt geislamengaðan jarðveg óafvitandi frá Rauðaskógi inn í verið með fatnaði sínum og skóm. Matarumbúðir rússneskra hermanna hafa einnig fundist í og við verið. Mælingar sýna geislun í matnum 50 sinnum hærri en eðlilegt getur talist.
Það að rússneski herinn gróf skotgrafir í einhverjum mest geislandi jarðvegi á jörðinni og brenndi mengaðan gróður til að halda á sér hita er nær útilokað að skilja. Líklegast er þetta einhver blanda af þeirri grimmd sem Moskvuvaldið beitir í garð eigin hermanna, lítil þekking á því sem gekk á í námunda við Tsjernobyl fyrir 36 árum síðan og þá einkum hve langvarandi afleiðingar þessa slyss eru. Hvort heldur sem er þá eru þetta enn ein taktísku mistökin sem Moskvuvaldið hefur sýnt í Úkraínu. Mistök sem nú líkt og áður bitna mest á þeim sem taka ekki ákvarðanirnar.
Mynd þessi er drónaskot sem sýnir skotgrafir Rússa í Rauðaskógi og svefnstað.
Skjáskot/Varnarmálaráðuneyti Úkraínu
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.