Búið er að taka við um 9.300 tonnum af kolmunna til vinnslu í fiskimjölverksmiðju Síldarvinnslunar á Seyðisfirði, það sem af er vertíð. Lokið var við að landa 3.100 úr Beitir NK þar í dag og er skipið nú á leið á kolmunnamiðin við Færeyjar á ný. Þá er Bjarni Ólafsson AK á leið til Seyðisfjarðar með um 1.800 tonn.
Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustrjóri á Seyðisfirði, segir í færslu á vef Síldarvinnslunnar vinnsluna hafa gengið vel þrátt fyrir að bilun hafi komið upp í mjölskilvindum. „Við erum að komast á beinu brautina á ný eftir bilunina,“ segir Eggert.
Alls hefur verið landað um 11.000 tonnum í Neskaupstað en þar er unnið að því að bæta við 3.000 tonnum úr Berki NK. „Veiðin er góð og skipin eru að koma með gott hráefni að landi. Vinnslan hjá okkur hefur gengið afar vel og afurðirnar eru fyrsta flokks,“ segir Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í Neskaupstað, í færslunni.