„Ég held við séum öll svekkt yfir því að þetta hafi mistekist vegna þess að fyrri umferðin gekk mjög vel,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins þegar rætt var um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka á Alþingi í morgun.
„Ég treysti Bjarna Benediktssyni,“ sagði Sigurður Ingi en Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði um traustið.
Sigurður Ingi sagði að ákvörðun hefði verið tekin um að stöðva söluferlið á frekari hlut í Íslandsbanka:
„Vegna þess að ég treysti ekki Bankasýslunni. Ég treysti henni ekki! Ég vil að það liggi fyrir rannsóknir áður en að við tökum fleiri ákvarðanir og við finnum ferli sem við treystum öll betur en það sem við erum með í dag,“ sagði ráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, spurði Sigurð Inga af hverju hann gerði ekkert með viðvaranir Lilju Daggar Alfreðsdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins og viðskiptaráðherra, sem sagðist hafa haft áhyggjur af söluferlinu.
Sigurður Ingi sagði það eðli málsins í stjórnmálum að hafa áhyggjur. „Það er hins vegar líka þannig að við eigum að hlusta á sérfræðingana. Sérfræðingarnir komu með ákveðna tillögu,“ sagði ráðherra og bætti við að honum þyki sérfræðingar hafa brugðist.