Fjármálaráðneytið braut ekki lög um innkaup opinberra aðila á þjónustu eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðneytinu.
Fréttablaðið greindi frá því í dag af fjármálaráðuneytið hafi brotið lög í tengslum við sölu ríkisins á Íslandsbanka. Brotið átti að hafa tengst greiðslu til erlendra ráðgjafa þar sem þjónusta þeirra hafi ekki farið í útboð líkt og reglur segja til um þegar að kemur innkaup á þjónustu af hálfu ríkisins.
Samkvæmt reglum fjármálaráðuneytisins um opinber innkaup skulu öll kaup ríkis og sveitarfélaga á vöru og þjónustu yfir 18,5 milljónum króna fara í útboð. Var fjármálaráðuneytinu gert að sök að hafa greitt erlendum ráðgjöfum 22,4 milljónir króna fyrir þjónustuna og því brotið lög.
Fjármálaráðuneytið hefur nú svarað fréttunum og sagt að samkvæmt lögum um opinber innkaup falli kaup opinberra aðila á „fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða aðilaskipti að verðbréfum eða öðrum sambærilegum fjármálagerningum“ ekki undir útboðsskyldu.
Einnig kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins að greitt hafi verið 15,1 milljón króna fyrir ráðgjöf fyrir frumútboð á sölu Íslandsbanka síðastliðið sumar. Aftur hafi sami aðili veitt ráðgjöf nú í mars vegna tíðrætts útboðs og greitt hafi verið fyrir það eftir samningi upphæð sem nemur fimm milljónum króna. Því hafi þeir samningar sem ráðuneytið hafi gert við ráðgjafa í tengslum við sölu eignarhluta í fjármálafyrirtækjum verið innan þeirra fjárhæðarmarka sem leiða af lögum um opinber innkaup.
„Fréttir sem nýlega birtust um að ráðuneytið hafi brotið gegn reglum um opinber innkaup með kaupum á slíkri þjónustu eiga því ekki við rök að styðjast,“ segir jafnframt í tilkynningu ráðneytisins.
Bankasýsla ríkisins hafi hinsvegar farið í útboð vegna ráðgjafaþjónustu í tengslum við söluna á Íslandsbanka og þar með fylgt lögum um útboð vegna innkaupa opinberra aðila á þjónustu. Bankasýslan greiddi alls um 40 milljónir fyrir ráðgjöf fyrirtækisins STJ Advisors Group Limited.