Guðmundur hættur eftir hálfa öld hjá Bergi-Hugin

Guðmundur Arnar Alfreðsson að störfum.
Guðmundur Arnar Alfreðsson að störfum. Ljósmynd/Síldarvinnslan

Guðmundur Arnar Alfreðsson hefur látið af störfum sem útgerðarstjóri Bergs-Hugins ehf. í Vestmannaeyjum, en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu frá því hann lauk námi frá Vélskóla Íslands 1973 og því óhætt að segja að um er að ræða tímamót hjá fyrirtækinu.

Guðmundur, sem hélt upp á asjötugsafmælið á laugardag hafði áður starfað hjá Bergi hf., öðru þeirra félaga sem stofnuðu Berg-Hugin árið 1972 og hefur þannig í raun starfað hjá félaginu í hálfa öld, að því er fram kemur í færslu á vef Síldarvinnslunnar sem er eigandi Bergs-Hugins.

Guðmundur var vélstjóri á Vestmannaey.
Guðmundur var vélstjóri á Vestmannaey. Ljósmynd/Síldarvinnslan

Í upphafi sinnti Guðmundur vélstjórastörfum á skuttogaranum Vestmanney en árið 1986 tók hann við starfi útgerðarstjóra og hefur því sinnt því í 36 ár. „Hann er einn þeirra manna sem sífellt hefur verið unnt að treysta á og hann hefur alla tíð gegnt störfum sínum af einstakri samviskusemi,“ segir í færslunni.

„Ekki kemur á óvart að Guðmundur er mjög tæknilega sinnaður og fylgist vel með allri framþróun sem á sér stað á hinu tæknilega sviði. Fyrir allmörgum árum fékk Guðmundur mikinn áhuga á flugi, lauk einkaflugmannsprófi árið 1986 og hefur síðan svifið um loftin blá í frístundum sínum eða til að sinna erindum uppi á landi.“ Í færslunni er einnig vakin athygli á að hann hafi haft áhuga á ljósmyndun og að heimasíða Síldarvinnslunnar hafi fengið myndir þegar þörf hefur verið á.

Drengur góður

„Guðmundur er góður drengur, heilsteyptur og hefur aldrei hallmælt nokkrum manni. Þá er hann athugull, yfirvegaður og lausnamiðaður. Vinnusemi hefur alla tíð einkennt hann og þegar mikið er að gera þá hefur hann alltaf verið síðasti maður heim. Það voru forréttindi að starfa með Guðmundi,“ segir Magnús Kristinsson, framkvæmdastjóri Bergs-Hugins til ársins 2017, í færslunni.

Þá segir Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs-Hugins, að söknuður verði af Guðmundi og að hann hafi verið einkar hæfur til að gegna starfi sínu og hann sé dugnaðarforkur auk þess að vera prýðismaður í alla staði.

Frá afmælisveislunni á laugardag. f.v.: Magnús Kristinsson fyrrverandi framkvæmdastjóri, Guðmundur, …
Frá afmælisveislunni á laugardag. f.v.: Magnús Kristinsson fyrrverandi framkvæmdastjóri, Guðmundur, Arnar Richardsson rekstrarstjóri og Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar. Ljósmynd/Síldarvinnslan
mbl.is