Slysavarnaskóli sjómanna í Sæbjörg var fyrir skömmu fluttur frá Austurhöfn að Bótarbryggju í Gömlu höfninni í Reykjavík. Bótarbryggja liggur út af Grandagarði, milli Slysavarnahússins og Bakkaskemmu, húss Sjávarklasans.
Sæbjörgin sigldi fyrir eigin vélarafli á nýja framtíðarstaðinn. Ferðin tók skamman tíma, enda stutt að fara.
Sæbjörgin hefur legið í Austurhöfninni síðustu 15 árin. Miklar breytingar hafa orðið á þessu svæði undanfarin ár. Fyrst reis tónlistarhúsið Harpa, því næst stór fjölbýlishús og loks var opnað nýtt lúxushótel, Reykjavík Edition-hótelið.
Áður en af flutningi Sæbjargar gat orðið þurfti að tryggja aðgang að rafmagni, vatni, frárennsli og ljósleiðara. Skólinn er í eigu Slysavarnafélagsins Landsbjargar en hann var stofnaður árið 1985 til að sinna öryggisfræðslu fyrir sjómenn. Árið 1998 gaf ríkisstjórn Íslands félaginu ferjuna Akraborg til afnota fyrir skólann.