Dettifoss besta skip sem ég hef kynnst

Ríkharður Sverrisson, skipstjóri á Dettifossi, kveðst ekki muna eftir eins …
Ríkharður Sverrisson, skipstjóri á Dettifossi, kveðst ekki muna eftir eins miklum sviptingum í veðri eins og síðastliðinn vetur. mbl.is/Sigurður Bogi

Skip­stjór­inn stend­ur í brúnni og er stolt­ur af sínu. „Detti­foss­inn nýi er besta skip sem ég hef nokkru sinni kynnst,“ seg­ir Rík­h­arður Sverris­son og í aug­um bregður fyr­ir bliki. Af Skans­in­um í Þórs­höfn í Fær­eyj­um má fylgj­ast með ferðum stór­skips­ins sem skríður ljúft með landi að bryggju.

Á sund­inu við Nóls­ey mæt­ast keppi­naut­ar; Detti­foss Eim­skipa­fé­lags­ins og Helga­fellið að koma frá Dan­mörku og sigl­ir til Runa­vik­ur, þar sem af­greiðsla Sam­skipa er. Eim­skip er aft­ur á móti á sín­um fasta pósti í Þórs­höfn. Á öll­um tím­um hafa Fær­eyj­ar verið einn af lyk­il­stöðunum í flutn­inga­neti fé­lags­ins þangað sem skip­in flytja aðföng og afurðir frá.

Græn­land er fyrst og síðan Evr­óputúr

Þrjú skip sigla hina Rauðu leið Eim­skips; það er Detti­foss, Brú­ar­foss og Tukjuma Arctica sem er í eigu græn­lenska fé­lags­ins Royal Artic Line (RAL). Eim­skip og Græn­lend­ing­arn­ir eru í sam­sigl­ing­um um þessa áætl­un, í sam­starfi sem hef­ur gilt í um tvö ár. Þegar ný áhöfn kem­ur í skip í Reykja­vík á þriðju­degi er Nuuk fyrst á dag­skrá, en að sigla þangað og aft­ur heim tek­ur eina viku. Strax á eft­ir kem­ur tveggja vikna Evr­óputúr.

Fyrsta stopp í túrn­um langa er Reyðarfjörður. Svo er lagt á Atlant­hafið og fyrsta stoppið þá er Þórs­höfn í Fær­eyj­um þangað sem er komið síðdeg­is á föstu­degi. Næsta koma Árós­ar í Dan­mörku, þá Ála­borg og svo Hels­ing­borg í Svíþjóð. Komið á föst­um tíma í hverja höfn og stífri áætl­un haldið. Frá Fær­eyj­um er fisk­ur, svo sem eld­islax, uppistaðan í frakt­inni, en í viðkomu þar á heim­leið til Íslands er al­menn neyslu­vara fyr­ir eyja­skeggja í mörg­um gám­um. Einnig er sótt­ur kost­ur fyr­ir Græn­lend­inga í gegn­um RAL, þótt mest af því sem skip­in á rauðu leiðinni flytja fari auðvitað til Íslands. Skip­in sem sigla Gulri leiði hjá Eim­skip koma einnig við í Þórs­höfn á leiðinni út. Koma þá fyrst við í Vest­manna­eyj­um og svo Fær­eyj­um, en halda halda síðan áfram til Evr­ópu með fyrsta stoppi í Imm­ing­ham í Bretlandi.

Dettifoss við bryggju í Þórshöfn.
Detti­foss við bryggju í Þórs­höfn. mbl.is/​Sig­urður Bogi

Gamli og nýi tím­inn mæt­ast í Þórs­höfn

„Mér finnst alltaf gott að koma hingað til Fær­eyja, Þórs­höfn er fal­leg­ur bær þar sem gamli og nýi tím­inn mæt­ast,“ sagði Rík­h­arður skip­stjóri sem Morg­un­blaðið hitti þar ytra í síðustu viku.

„Sigl­ing­in yfir hafið nú gekk eins og í sögu og því fylg­ir alltaf sér­stök stemn­ing að sjá eyj­arn­ar rísa úr hafi. Kom­um þá fyrst að Fugley og Svín­ey, en nú för­um við aust­an við eyj­arn­ar og kom­um þá leið inn til Þórs­hafn­ar. Eft­ir að hafa siglt þessa áætl­un í bráðum tutt­ugu ár verður hver ferð þó ann­arri lík. Frá því Covid skall á höf­um við til dæm­is tæp­ast farið frá borði í höfn­um, en nú þegar veir­an er í rén­un verður breyt­ing á því. Eins er gam­an eins og nú að fá góðan gest um borð,“ seg­ir kap­teinn­inn og bein­ir orðum sín­um til blaðamanns.

Óveður og ís­jak­ar

Detti­foss og Brú­ar­foss komu ný inn í skipa­stól Eim­skips fyr­ir um tveim­ur árum. Skip­in eru 26.169 brútt­ót­onn; búin öll­um bestu tækj­um og vel er fyr­ir öllu séð. Meðal ann­ars er skipið sér­stak­lega styrkt til sigl­inga á Norður-Atlants­hafi, á þung­um rúm­sjó þar sem margt þarf að hafa í huga.

„Ég hef verið til sjós mjög lengi en man ekki eft­ir eins mikl­um svipt­ing­um í veðri og verið hafa á síðustu mánuðum. Þetta er minn al­versti vet­ur til sjós. Núna í mars við Græn­land lent­um við í djúpri lægð suður af Hvarfi. Sú var 932 milli­bör og vind­ur fór í 50 metra á sek­úndu. Þá hef­ur verið mikið um ís við Græn­land í all­an vet­ur, meðal ann­ars borga­rís­jaka sem brotna frá jökl­in­um og rek­ur út. Um þetta má með al­menn­um orðum segja að öfg­ar í veðráttu eru nú á allra síðustu árum mun meiri en áður var. Auðvitað ligg­ur beint við að segja þetta áhrif hnatt­rænn­ar hlýn­un­ar í and­rúms­loft­inu, þótt ég geti auðvitað ekk­ert full­yrt um slíkt.“

Sigl­ing­in held­ur áfram

Sem ung­ling­ur var Rík­h­arður Sverris­son send­ill á Morg­un­blaðinu sum­ar­langt og minn­ist þess sem skemmti­legs tíma. Eins og hefðin í fjöl­skyld­unni bauð fór okk­ar maður til sjós; var munstraður sem messi á ein­um Foss­anna vorið 1973 og með því var ten­ing­un­um kastað. Há­seti, stýri­maður og nú síðast skip­stjóri. Á Detti­fossi tek­ur hann sem skip­stjóri ann­an hvern túr á móti Kristjáni Ólafs­syni.

Rík­h­arður stíg­ur öld­una, verður senn 65 ára og kem­ur í land eft­ir tvö ár. „Þótt skip­in verði æ betri og tækn­in meiri þá er far­mennsk­an í sjálfu sér alltaf eins. Íslend­ing­ar eiga allt sitt und­ir sjó­flutn­ing­um og verða að halda sín­um hlut þar. Sigl­ing­ar ráða sjálf­stæði þjóða. Sem skip­stjóri hef ég reynt að vera sann­gjarn við mína menn í áhöfn­inni, svo mórall sé í lagi og hlut­ir gangi vel. Sigl­ing­in held­ur enda­laust áfram,“ seg­ir skip­stjór­inn á Detti­fossi að síðustu.

Mikið um að vera í höfninni í Þórshöfn.
Mikið um að vera í höfn­inni í Þórs­höfn. Morg­un­blaðið/​Sig­urður Bogi
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: