Moskvuvaldið hefur nú dustað rykið af einum af sínum risum úr kalda stríðinu, flugvél af gerðinni Ilyushin Il-80. Sást vélin í lágflugi yfir rússnesku höfuðborginni en flugvél þessari er afar sjaldan flogið. Il-80 er sérstaklega hönnuð með það í huga að vera stjórnstöð rússneska hersins í kjarnastríði og því oft kölluð „dómsdagsvél“ í daglegu tali. Atlantshafsbandalagið (NATO) kallar vélina hins vegar „Maxdome“. Fullvíst er talið að Il-80 muni taka þátt í hátíðarhöldum 9. maí nk., þegar Rússar halda upp á sigurdaginn svonefnda. Er þess þá minnst þegar Sovétríkin sálugu unnu sigur á Þriðja ríki Þýskalands 1945. Með flugi Il-80 eru Rússar vafalítið að senda ríkjum NATO skilaboð um að láta af stuðningi sínum við Úkraínumenn.
Ilyushin Il-80, eða Eimak eins og hún er kölluð af Rússum, er breytt útgáfa af sovésku farþegaþotunni Il-86. Eimak var fyrst flogið 5. mars 1987 og smíðuðu Sovétmenn alls fjögur eintök. Fengu vélarnar skráningarnúmerin CCCP-86146 til 86149, skammstöfun sem stendur fyrir heiti Sovétríkjanna. Vestrænar leyniþjónustur náðu þó ekki ljósmyndum af Eimak fyrr en árið 1992. Svo leynileg var hún.
Il-80 er breytt útgáfa af sovésku farþegaþotunni Il-86. Hún er með áberandi bungu sem hýsir flókinn rafeindabúnað.
Ljósmynd/Wikipedia.org
Il-80 Eimak er sérstaklega hönnuð til að hýsa allan þann tækni- og fjarskiptabúnað sem nauðsynlegur er til að fjarstýra kjarnastríði. Við slíkar aðstæður er gert ráð fyrir að helstu hershöfðingjar Rússlands og forseti séu um borð. Er hlutverk þessarar vélar því hið sama og hinnar bandarísku Boeing E-4B.
Athygli vekur að Eimak er með öllu gluggalaus, fyrir utan þá glugga sem flugmenn horfa út um. Er þetta gert til að verja þá sem inni eru fyrir áhrifum kjarnasprengingar, einkum rafsegulhöggi sem auðveldlega getur orsakað óafturkræfar bilanir og eyðileggingar í tölvubúnaði. Á toppi Eimak, aftan við flugstjórnarklefa, er áberandi bunga. Inni í þessu rými er flókinn gervitunglafjarskiptabúnaður sem tryggja á samskipti við hersveitir á jörðu niðri og stjórnkerfi Rússlands. Í stéli vélarinnar er svo fjarskiptabúnaður sem sendir út á lágtíðni og er hann sérstaklega hannaður til að tryggja samskipti við neðansjávarflota Rússlands. Er þá átt við kjarnakafbáta sem hýsa kjarnavopn.
Hvíti svanurinn Tu-160 fyrir miðju ásamt MiG-31-orrustuþotum og Il-78 eldsneytisflugvél.
AFP
Um tíma voru fjórar Il-80 dómsdagsvélar geymdar á Chkalovsky-herflugvellinum sem staðsettur er 30 kílómetra norðaustur af Moskvu. Þrjár hafa verið í herþjónustu frá árinu 2011 og er þeim afar sjaldan flogið. En ekki er vitað um mörg flug frá árinu 2010.
Þá er vert að geta þess að auk Il-80 munu minnst tvær kjarnasprengjuvélar taka þátt í sýningunni á Rauða torginu í Moskvu. Verður þeim flogið í lágflugi yfir svæðið. Eru það annars vegar Hvíti svanurinn svonefndi, Tupolev Tu-160, og hins vegar Björninn, Tupolev Tu-95.
Björninn Tu-95 yfir Moskvu ásamt Su-35-orrustuþotum.
AFP
Meðfylgjandi eru fjórar myndir. Fyrstu tvær myndir sýna dómsdagsvélina Il-80. Var fyrri myndin tekin fyrir fáeinum dögum síðan og sýnir Il-80 á flugi yfir Moskvu. Seinni mynd var tekin árið 2010. Þriðja mynd sýnir Hvíta svaninn, langdræga kjarnasprengjuvél. Og fjórða mynd sýnir Björninn, en sprengjuvélar af þeirri gerð hafa ósjaldan sést við strendur Íslands, einkum á tímum kalda stríðsins. Var þeim þá mætt með orrustuþotum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.