Hinn 9. maí sl. héldu Rússar upp á sigurdaginn svonefnda og minntust þess þegar Sovétríkin sálugu unnu sigur á Þriðja ríki Þýskalands árið 1945. Fyrsta sigurdagshátíðin var haldin kl. 10 að morgni 24. júní 1945. Sú næsta var þó ekki haldin fyrr en árið 1965 og svo aftur 1985. Árið 1995 ákvað þáverandi Rússlandsforseti, Boris Yeltsín, að sigurdagurinn skyldi haldinn árlega og hefur það staðist. Ástæðan var einföld, Rússar voru að tapa fyrra Téténíustríðinu og þurfti Moskvuvaldið nauðsynlega að bæta móral heima fyrir. Á sigurdeginum er vanalega öllu tjaldað til, taka þar þátt allar sveitir rússneska heraflans. Það vakti því mikla athygli í ár þegar flugher Rússlands, sem vanalega er mjög áberandi á þessum hátíðarhöldum, var fjarverandi með öllu. Og það þrátt fyrir að hafa dagana á undan æft lágflug yfir Rauða torginu. Var flugherinn, að sögn sérfræðings, fjarverandi til að koma í veg fyrir vandræðalega uppákomu. En það var þó fleira sem vantaði.
Dögum saman fylgdist rússneskur almenningur með lágflugi hersins yfir höfuðborginni Moskvu. Voru þar á ferð orrustuþotur og -þyrlur af ólíkum gerðum, kjarnasprengjuvélar og dómsdagsflugvélin svonefnda, en hún hefur vart sést á flugi frá árinu 2010. Það kom því öllum mjög á óvart þegar flugherinn lét ekki sjá sig á hátíðinni miklu, þrátt fyrir heiðan vorhiminn og létta golu. Þetta er þó ekki það eina sem kom á óvart því svo virðist sem Rússar geti ekki lengur falið það mikla mann- og tækjatjón sem þeir hafa orðið fyrir í Úkraínu.
Hinn 9. maí sl. tóku alls 131 ökutæki frá 25 mismunandi gerðum af landhertækjum þátt í sigurdeginum í Mosku. Það kann að hljóma mikið, en fellur í skuggann af sýningunni sem haldin var fyrir ári. Þá tóku þátt 198 ökutæki frá 35 mismunandi gerðum af landhertækjum. Er umfang sýningarinnar því nærri 35% minna en í fyrra. Telja sérfræðingar ljóst að Úkraínustríðið sé farið að hafa veruleg áhrif á hernaðarstyrk Rússlands og að Moskvuvaldið hafi átt erfitt með að finna sýningarhæf eintök af vissum bryndrekategundum.
Rússneskar orrustuþotur af gerðinni SU-25 æfa lágflug yfir Rauða torginu. Þær tóku þó ekki þátt í sigurhátíðinni miklu.
AFP/YURI KADOBNOV
Fullvíst er talið að Rússar hafi nú þegar misst um 600 bryndreka í Úkraínustríðinu og hundruð brynvarin ökutæki. Vakti það einnig athygli hve fáir brynvarðir bílar voru til sýnis á sigurdeginum, eða 50% færri borið saman við sýninguna fyrir ári. Sömu sögu er einnig að segja af fallbyssum, hábyssum og eldflaugakerfum af ýmsum gerðum. Allt var þetta smátt í sniðum.
Upphaflega áttu 15 herþyrlur að taka þátt í hátíðarhöldunum, voru 23 í fyrra. Engin þeirra mætti. Eins vakti athygli þegar gert var ráð fyrir 16 MiG-29-orrustuþotum, voru aðeins 4 í fyrra, og engum orrustuþotum af gerðinni Su-30 og Su-35. Hér er vert að hafa í huga að MiG-29 er rúmlega 30 ára gömul tækni en Su-30 og Su-35 eru mun yngri vélar. Þær eru hins vegar í mikilli notkun vegna innrásarinnar og hafa margar þeirra verið skotnar niður.
Auk þess að glíma við svo gott sem augljósan skort á hergögnum telja sérfræðingar ljóst að Rússa skortir hæfa her- og flugmenn. Í gönguna vantaði t.a.m. fulltrúa frá nokkrum herfylkjum Rússlands, sveitir sem vitað er að hafa orðið fyrir miklu mannfalli í Úkraínu. Sú ákvörðun að blása af flugsýninguna kann einnig að vera vegna þess að bestu flugmenn Rússa eru bundnir við átakasvæðið. Yfirstjórn flughersins hafi ekki treyst þeim sem heima eru til að framkvæma flókið lágflug í golu á meðan heimsbyggðin fylgist með. Betra sé að sleppa fluginu alveg í stað þess að hætta á klúðurslega uppákomu.
Meðfylgjandi eru þrjár myndir. Sú fyrsta sýnir Rússlandsforseta á sigurdeginum ásamt varnarmálaráðherranum Sergei Shoigu. Önnur mynd sýnir æfingu flughersins, daginn fyrir sigurdaginn. Vélarnar eru af gerðinni Su-25 og er um 50 ára gömul hönnun. Þriðja mynd sýnir MiG-29-orrustuþotur.
Rússneskar herþotur af gerðinni MiG-29 æfa lágflug skömmu fyrir sigurdaginn.
AFP/KIRILL KUDRYAVTSEV
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.