Hnefaleikakappinn Mike Tyson verður ekki ákærður fyrir að láta höggin dynja á öðrum flugfarþega. Atvikið átti sér stað í flugvél sem var á leið frá San Francisco til Flórída i apríl.
Saksóknari ákvað að gefa ekki út ákæru í málinu og lét málið niður falla vegna aðstæðna sem leiddu til atviksins. Var þar með tekið inn í myndina hegðun fórnarlambsins sem leiddi til ofbeldis Tyson og samskipti Tyson og fórnarlambsins. Aðilar málsins vildu auk þess ekki aðhafast meira í málinu.
Undanfari málsins var að tveir karlmenn höfðu komið auga á Tyson á leið inn í vélina og spjölluðu stuttlega við hann. Á einhverjum tímapukti fékk hnefaleikakappinn fyrrverandi nóg af þeim félögum sem reyndu að tala við hann linnulaust og lét hnefana tala.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Tyson kemst í fréttir fyrir ofbeldi og óæskilega hegðun. Hann er þekktur fyrir að bíta eyra mótherja síns, Evander Holyfields, árið 1997. Hann fékk þriggja ára fangelsisvist árið 1992 fyrir nauðgun. Árið 2007 viðurkenndi hann kókaínfíkn.