Stjórnun makrílveiða og kvótaskipting var umræðuefni á fundi strandríkja í London í vikunni. Ekki var gengið frá samkomulagi um skiptingu á fundinum, en ákveðið að hittast á nýjan leik á tveimur fundum í júnímánuði. Kristján Freyr Helgason, sem fór fyrir íslensku nefndinni, segir að fundurinn hafi eigi að síður verið á jákvæðum nótum og fulltrúar strandríkjanna skipst á skoðunum. Hann segir að samtalið hafi verið gott á fundinum og fram hafi komið vonir um heildstæðan samning fyrir árið 2023.
Síðast var rætt um stjórnun makrílveiða á fundi í lok mars og var þá lögð fram skýrsla vísindamanna um dreifingu makríls og fleira. Búast má við að strandríkin kynni kröfur sínar á júnífundunum.
Fundurinn var haldinn í höfuðstöðvum NEAFC í London og auk Íslands áttu Færeyjar, Bretland, Evrópusambandið, Grænland og Noregur fulltrúa á fundinum. Sex manns voru í íslensku nefndinni, fulltrúar matvælaráðuneytis, utanríkisráðuneytis, Hafrannsóknastofnunar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.