Ná skammtinum þegar gefur

Um 40 bátar hafa landað á Arnarstapa í vor og …
Um 40 bátar hafa landað á Arnarstapa í vor og mikið líf verið við höfnina á þessum vinsæla ferðamannastað. mbl.is/Alfons

Annir fylgja strandveiðum í höfnum Snæfellsbæjar og hafa yfir 100 strandveiðibátar landað þar á einum degi þegar mest hefur verið að gera. Björn Arnaldsson, hafnarstjóri í Snæfellsbæ, segir að bátarnir fari yfirleitt snemma út. Þeir fyrstu séu komnir inn fyrir hádegi, en þeir síðustu eftir kvöldmat.

„Þegar veðrið er almennilegt ná allir skammtinum, en frátafir hafa verið vegna veðurs. Í næstu viku spáir vel og þá verður gangur í þessu,“ segir Björn hafnarstjóri.

Í síðustu viku var hægt að róa tvo daga af fjórum og sjá má á meðfylgjandi töflu að veður hefur haft talsverð áhrif á sókn og heildarafla. Allt að 40 strandveiðibátar landa á Arnarstapa, en þar er aðeins einn löndunarkrani. Oft er þar löndunarbið og þá ekki annað að gera en að fara í röð og bíða eftir að komast undir kranann. Hægt er að fylgjast með lífinu við hafnirnar í vefmyndavélum, en nýjar vélar hafa verið settar upp á Arnarstapa og Rifi og sú þriðja verður sett upp í Ólafsvík á næstunni.

Mynd/mbl.is

Langflestir strandveiðibátar róa á svæði A, sem nær frá Arnarstapa til Súðavíkur, og hefur bátum á svæðinu fjölgað frá síðasta ári. Samkvæmt yfirliti Landssambands smábátaeigenda hafa 233 bátar róið á A-svæði í vor eða rúmur helmingur þeirra 452 báta allt í kringum landið, sem hafa landað afla á vertíðinni. Bátum hefur aðeins fjölgað á svæði B frá Norðurfirði til Grenivíkur, aðeins fækkað á svæði C frá Húsavík til Djúpavogs og fækkað talsvert á D-svæði frá Hornafirði í Borgarnes.

56% hækkun á þorski

Fiskverð á mörkuðum hefur verið gott undanfarið og hafa fengist 383 krónur að meðaltali fyrir kílóið af óslægðum færafiski. Fyrstu daga strandveiða í fyrra fengust 246 krónur fyrir kílóið af þorski sem seldur var á mörkuðum og nemur hækkunin 56%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: