Fram er komin upptaka sem hefur að geyma fjarskipti milli eldflaugabeitiskipsins Moskvu og rússnesks dráttarbáts sem sendur var herskipinu til aðstoðar eftir eldflaugaárás Úkraínumanna í apríl síðastliðnum. Er þar óskað eftir tafarlausri aðstoð, skipið sagt alvarlega skemmt og að ekki sé hægt að ná neinu sambandi við þá sem starfa í brú skipsins. Í bakgrunni hringir í háværum neyðarbjöllum skipsins.
„Dráttarbátur, heyrir þú í mér? Skipti,“ segir ónafngreindur sjóliði um borð í Moskvu. „Tvö göt fyrir neðan sjólínu. [Skipið er] byrjað að halla. Ég endurtek, það er byrjað að halla. Ekkert samband næst við brúna. Þar er bara þögn. Hallinn mælist 30 gráður. Það er að fara á hliðina,“ heldur sjóliðinn áfram og bætir við að Moskva sé orðin vélarvana. „Við getum ekki haldið áfram. Reynum að koma áhöfn frá borði.“
Þessi upptaka þykir staðfesta fyrri fullyrðingu Úkraínumanna þess efnis að hersveitir þeirra hafi skotið tveimur skipaflaugum á eldflaugabeitiskipið. Moskvuvaldið hefur til þessa ekki viljað viðurkenna það, segir Svartahafsflotaflaggskipið hafa laskast eftir óútskýrða sprengingu í vopnageymslum skipsins og sokkið í kjölfar þess. Þá þykir upptakan einnig renna stoðum undir þá kenningu að brú skipsins hafi snemma verið tekin út og að áhöfnin hafi yfirgefið Moskvu í miklum flýti.
Vilja ekki jarðneskar leifar
Einkennileg staða er nú komin upp í Kænugarði í norðurhluta Úkraínu. Þar hafa að undanförnu lík hundraða rússneskra hermanna safnast upp því Moskvuvaldið hefur ekki samþykkt að taka við þeim. Þess í stað hafa Úkraínumenn þurft að safna líkunum saman og geyma þau í kælivögnum á lestarstöð við höfuðborgina. Ofursti í Úkraínuher segir ljóst að ekki sé hægt að geyma líkin við þessar aðstæður til lengdar. Vilji Rússar ekki taka við þeim neyðast Úkraínumenn til að brenna þau. Sama staða mun vera komin upp víða í Úkraínu. Eru þannig lík þúsunda rússneskra hermanna sögð geymd í kælivögnum.
Varaforsætisráðherra Úkraínu, Iryna Vereshchuk, sér um viðræður við Rússa um skipti á stríðsföngum. Hún segir Moskvuvaldið ekki hafa nokkurn áhuga á jarðneskum leifum hermanna sinna, nenni ekki að ræða viðfangsefnið. „Líklegast telja þeir lík fallinna hermanna Rússlands ekki eiga skilið að snúa heim aftur til greftrunar,“ segir hún.
Taka áhættu vegna þrýstings
Varnarmálaráðuneyti Bretlands segir augljóst að Moskvuvaldið beiti herstjórn innrásarliðsins í austurhluta Úkraínu miklum þrýstingi. Hávær krafa sé um stóra sigra án tafar. Þessi þrýstingur hefur orðið þess valdandi að herforingjar leggja sumir allt undir með skelfilegum afleiðingum fyrir herinn. Nýlegt dæmi um slíkt er þegar heilt herfylki var þurrkað út með stórskotaliði þegar það gerði tilraun til að brúa á. Hundruð hermanna féllu í valinn.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.