Samþykkt var á fundi allsherjarþings Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) í nóvember í fyrra að 18. maí yrði árlegur alþjóðadagur kvenna í siglingum og því sá fyrsti í sögunni í dag. Kjörorð dags kvenna í siglingum eru að þessu sinni: „Þjálfun, sýnileiki og viðurkenning; Brjótum niður múra starfsgreinanna“.
Tilgangur dagsins er að skapa vettvang til að varpa ljósi á og fagna árangri kvenna sem starfa á sjó og greina svið þar sem bæta má kynjajafnvægi, að því er fram kemur á vef IMO.
Stofnunin hefur í dag kynnt nýtt merki dagsins og staðið að alþjóðlegu málþingi þar sem lögð var áhersla á nauðsyn þess að konur séu sýnilegri í geiranum í heild, séu í auknum mæli með virka fulltrúa á ákvarðanatökustigum og studdar betur með viðeigandi þjálfun og menntun. Jafnframt var hrinnt af stað herferð á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #WomenInMaritimeDay (konur í siglingum).
Þá voru kynntar niðurstöður skýrslu um stöðu kvenna í siglingum. Samkvæmt skýrslunni, sem nær til allra aðildarríkja IMO, eru aðeins 2% af áhafnarmeðlimum konur, langflestar í farþegaskipum.