Fá 55,6% meira fyrir strandveiðiaflann

Sævar Þór Asgeirsson ánægður með sinn afla á strandveiðum í …
Sævar Þór Asgeirsson ánægður með sinn afla á strandveiðum í fyrra. Strandveiðisjómenn geta fagnað hagstæðu verði. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Sett var aflamet á strandveiðum á mánudag en aldrei hefur jafn mikið veiðst á einum degi í maí frá upphafi veiðanna 2009. Fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda að  um 440 til 450 strandveiðibátar hafi verið á sjó og lönduðu þeir alls 308 tonnum, en fyrra met frá maí 2020 var 273 tonn.

Mikil aðsókn hefur verið í veiðarnar í ár en verð hafa verið afburða góð. Á fyrstu 16 dögum sem óslægður þorskur var seldur á fiskmörkuðum í maí nam meðalverð 387,38 krónur á kíló. Það er tæplega 45% hærra en á fyrstu 16 dögum 2021 þegar meðalverð var 267,76 krónur og 75% hærra en 2020 þegar meðalverð nam 222,72 krónur.

Að loknum tólfta degi strandveiða nam aflaverðmætið 751 milljónum króna og er rúmlega 28% meira nú en á sama tíma í fyrr þegar það nam 585 milljónum. Hafa ber í huga að á þessum tólf dögum náðust 2.914 tonn í ár en 3.532 tonn í fyrra, en veður hefur truflað veiðarnar í ár. Ef tekið er tillit til magns hefur verðmæti hvers landaðs kíló (óháð tegund) aukist um 55,6%.

Olíuverð er þó töluvert hærra en í fyrra, en flest bendir þó til að strandveiðisjómenn munu hafa ágæta afkomu af veiðum ársins.

mbl.is