Úkraínski herinn samanstendur af „atvinnumönnum“ sem staðráðnir eru í að „berjast til síðasta manns“. Staða rússneska hersins mun „einungis versna,“ enda er „allur heimurinn á móti okkur“. Þetta sagði Mikhaíl Khodarenok, fyrrverandi ofursti í rússneska hernum og álitsgjafi þar í landi um hernaðarleg málefni, í beinni útsendingu í rússneska ríkissjónvarpinu. Síðar birtist þessi sami maður í fjölmiðlum á ný en þá bar við allt annan tón. Voru Rússar þá afar nálægt sigri í Úkraínustríðinu.
Það að fyrrverandi yfirmaður hersins hafi skotið stríðsbrölt Moskvuvaldsins niður í beinni sjónvarpsútsendingu verður að teljast einstakt í Rússlandi. Fréttamiðlar þar eru ekki þekktir fyrir gagnrýni sína í garð stjórnvalda. Þá má einnig geta þess sérstaklega að Mikhaíl þótti fyrir þetta afar virtur álitsgjafi með óflekkaðan feril innan hersins. Orð hans vega því þungt í eyrum þeirra tug milljóna Rússa sem fá upplýsingar sínar frá ríkissjónvarpinu.
„Við skulum ekki deyfa okkur fyrir upplýsingum og láta eins og mórallinn í úkraínska hernum sé að hrunin kominn. Því það er ekki nærri sannleikanum,“ sagði Mikhaíl þegar hann horfði í augu ríkisfréttamannsins sem þá reyndi að draga úr orðum ofurstans. Mikhaíl gaf sig þó ekki og hélt þess í stað áfram að gagnrýna. „Nú þegar hernaðaraðstoð Evrópu er að ná hámarki gætu ein milljón Úkraínumanna til viðbótar tekið upp vopn. Ástandið mun því einungis versna fyrir Rússland“. Mikhaíl var þó ekki hættur, þrátt fyrir ókyrrð í þeim sem viðstaddir voru útsendinguna. „Við erum landfræðilega einangruð. Allur heimurinn er á móti okkur, þó við viðurkennum það ekki.“
Daginn eftir að þessi orð féllu sneri Mikhaíl aftur í rússneska ríkissjónvarpið sem álitsgjafi. Og var hann þá kominn á allt aðra skoðun. „Þegar rætt er um getu Úkraínumanna til að stunda gagnárásir, þá eru það miklar ýkjur. Og hvað varðar áhyggjur fólks af þeim ákvörðunum sem okkar æðstu menn taka, þá bendir allt til þess að framkvæmd þessara aðgerða muni koma Úkraínu illa á óvart“.
Mikhaíl Khodarenok, fyrrverandi ofursti og álitsgjafi.
Skjáskot/ Rússneska ríkissjónvarpið
Frá því að innrásarstríð Rússlandsforseta hófst, 24. febrúar sl., hefur staða Moskvuvaldsins versnað með hverjum degi. Samhliða eykst vestræn hernaðaraðstoð og streyma varnar- og árásarvopn til Úkraínu frá æ fleiri ríkjum. Skotvopn, skotfæri, sprengjur, bryndrekar, orrustuflugvélar, árásarþyrlur, stórskotalið og hábyssur – allt er þetta og meira til sent Úkraínu til aðstoðar. Við bætast efnahagsþvinganir í garð Rússlands sem augljóslega eru farnar að segja til sín. Ein birtingarmynd þess að hve laskaður iðnaður landsins er orðinn vegna skorts á íhlutum og tæknivörum. Neyðast Rússar nú t.a.m. til að lækka þær kröfur sem gerðar eru til öryggis- og mengunarmála í bílaframleiðslu sinni. Eru kröfur nú á pari við þær sem ríktu í framleiðslu Sovétríkjanna árið 1988.
Hernaðarsérfræðingar telja nú sumir raunverulega hættu á því að Rússlandsforseta verði steypt af stóli haldi staða Rússlands áfram að versna á vígvöllum Úkraínu. Ljóst sé að baráttuandi Úkraínumanna og sterkur vilji til að standa utan Rússlands hafi verið stórkostlega vanmetinn af leyniþjónustum Moskvuvaldsins. Töldu Kremlverjar Úkraínu svo auðsótta að þeir sendu einungis 190 þúsund hermenn upp að landamærunum, eða því sem nemur 0,8 rússneskum hermanni gegn 1 frá Úkraínu. Svo fámennt innrásarlið sé í raun fátítt í hernaði.
Ákvörðun Rússlandsforseta að ráðast með herliði inn í Úkraínu hefur vakið upp ýmsar spurningar. Einn þeirra sem velt hefur aðdragandanum fyrir sér er Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. Hann segir Vladimír Pútín Rússlandsforseta hafa breyst með hverju árinu. Í fyrstu var hann mjög opinn í garð Vesturlanda en sá gluggi tók fljótlega að lokast.
Tony Blair (t.h.) og Vladímír Pútín ræðast við í sumardvalarstað rússneska forsetans í Novo-Ogarevo, um 25 kílómetra frá Moskvu. Myndin er tekin árið 2003.
AFP/SERGEI KARPUKHIN
Í apríl árið 2000 hittust Blair og Pútín fyrst við embættisbústað forsætisráðherra Bretlands við Downingstræti 10 í Lundúnum. Var þetta fyrsta opinbera heimsókn Pútíns sem forseti.
„Fyrst þegar ég hitti Pútín þá var hann mjög áhugasamur um Vesturlönd og vildi eiga í góðum samskiptum við þau. Þegar við hittumst á hans heimavelli þá vildi hann alltaf funda í hinni frábæru Sankti Pétursborg, því hún er í vesturhluta Rússlands. En svo held ég að honum hafi fundist áskoranir tengdar breytingum á Rússlandi vera of miklar. Og þá hafi hann ákveðið að styrkja vald sitt og aðhyllast rússneska þjóðernishyggju,“ sagði Blair í viðtali við CNN og hélt áfram:
„Núna er hann algerlega úr tengslum við raunveruleikann, umkringdur fólki sem segir honum ekki sannleikann og það er ástæðan fyrir þessum taktísku mistökum. Allir sem þekkja Úkraínu vita að Úkraínumenn myndu aldrei láta Rússa taka sig yfir með þessum hætti. Þannig hefur Pútín farið frá því að vera leiðtogi sem aðhyllist Vesturlönd og leyfir Rússlandi að vera hluti af Vesturlöndum. Ég meina, hér áður var það rætt af alvöru hvort Rússland gæti orðið hluti af Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu. Það er mikilvægt að fólk muni þetta [...] Vandi Rússlands er ekki kominn til vegna þess að Vesturlönd hafa á einhvern hátt niðurlægt Rússland. Hann er vegna þess að í Rússlandi er slæm ríkisstjórn.“
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.