Leggja mat á hvað sé best fyrir selina

Sandra Magdalena Granquist segir reynt að meta áhrif ferðamanna á …
Sandra Magdalena Granquist segir reynt að meta áhrif ferðamanna á seli. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun

Nýtt stofnmat fyrir útsel verður unnið í haust og fyrir landsel á næsta ári, en báðum þessum verkefnum hafði áður verið frestað. Vísbendingar eru um að útsel hafi fjölgað við landið, en landselur virðist sveiflast í kringum lágmarksgildi, að sögn Söndru M. Granquist, deildarstjóra líffræðirannsóknadeildar Selaseturs Íslands og sérfræðings hjá Hafrannsóknastofnun. Ýmislegt fleira er á döfinni hvað við kemur rannsóknum á atferli sels og einnig hegðun ferðamanna við selalátur.

Hættan metin minni en áður

Samkvæmt mati á stofnstærð útsels 2017 taldi stofninn þá 6.300 dýr og hafði fjölgað um 2.100 dýr frá árinu 2012. Við þessa fjölgun breyttist flokkun útsels á válista spendýra og er hann nú metinn í nokkurri hættu en var áður metinn í hættu samkvæmt skilgreiningu Náttúrufræðistofnunar.

Sandra segir að spennandi verði að sjá niðurstöður þessa mats þar sem fimm ár séu liðin frá því síðasta. Þá hafði útsel fjölgað og á þeim tíma sem liðinn sé hafi fleiri útselir sést á Vatnsnesi.

Talning útsels fer fram með þeim hætti að flogið er yfir látur í október þegar hann kæpir. Látur útsels eru aðallega við Breiðafjörð, í Öræfum, í Surtsey og á Norðvesturlandi. Landselur notar að hluta sömu látur, en hann kæpir hins vegar frá miðjum maí og fram í miðjan júní. Í ferð starfsmanns Hafrannsóknastofnunnar á Vatnsnes í vikunni mátti sjá tvo unga kópa.

Innan við vikugamall útselskópur. Nokkurra vikna fara kóparnir úr fósturhárunum …
Innan við vikugamall útselskópur. Nokkurra vikna fara kóparnir úr fósturhárunum og fá gráleitan lit. Ljósmynd/Selasetur Íslands

Samkvæmt talningum á landsel 2020 voru um 10.300 dýr talin vera í stofninum, en það er 69% færri dýr en 1980 þegar fyrstu talningar fóru fram. Matið sýnir um 9% fjölgun í stofninum frá árinu 2018 þegar sambærilegt stofnstærðarmat var síðast unnið.

Samkvæmt stjórnunarmarkmiðum stjórnvalda fyrir landsel við Ísland skal lágmarks-stofnstærð vera 12.000 selir. Landselur var metinn sem tegund í bráðri hættu á válista sem var birtur 2018 en hefur verið uppfærður sökum fjölgunar samkvæmt síðustu talningunni 2020 og er nú metinn í hættu.

Til að fylgjast með atferli selanna hafa verið settar upp myndavélar á sex stöðum á landinu. Við greiningu mynda má afla upplýsinga um fjölda dýra, hvenær þeir liggja uppi á landi og fleira tengt atferli þeirra.

Af öðrum gögnum og vettvangsferðum starfsmanna Hafrannsóknastofnunar og Selaseturs er reynt að meta áhrif ferðamanna á selina og verður gögnum safnað í sumar eins og síðustu ár. Í þeim efnum segir Sandra að verkefnið sé unnið þverfaglega og reynt sé að leggja fræðilegt mat á hvað sé best fyrir selina og hvað veiti ferðanmönnum mesta ánægju. Ekki sé víst að þeir hagsmunir fari alltaf saman.

Hvernig þekkir urtan kópinn sinn af hljóðunum?

Á síðasta ári voru kynntar niðurstöður rannsóknar þar sem fram kom m.a. að landselsbrimlar við Íslandsstrendur virtust gefa frá sér lengri og lægri hljóð á fengitíma en landselir við Danmörku og Svíþjóð. Var talið að ástæðurnar gætu verið möguleg ógn í umhverfi þeirra, en hér sé mun meira af mögulegum rándýrum í sjónum, eins og háhyrningum og útselum. Með lengri og lægri köllum freisti landselsbrimlar hér við land þess hugsanlega í senn að ná eyrum urta á fengitímanum og um leið að draga úr hættunni á því að verða fyrir árásum.

Til að mæla mökunarköll landsela nýttu vísindamenn sérstakan upptökubúnað sem látinn var liggja í sjó nærri látrum í tiltekinn tíma. Nýtt verkefni sem tengist hljóðum sela er að fara af stað hjá meistaranema hjá Selasetrinu. Nú verða hljóðsamskipti selanna tekin upp í selalátrum, meðal annars með það í huga að reyna að fá svör við því hvernig urtan þekkir kópinn sinn af hljóðunum.

Landselur í öruggu skjóli í Norðurfirði í Árneshreppi.
Landselur í öruggu skjóli í Norðurfirði í Árneshreppi. mbl.is/RAX
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: