Brim hagnast og gefur starfsfólki hlutabéf

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagnaður Brims nam á fyrsta árs­fjórðungi þessa árs 26,4 millj­ón­um evra, um 3,8 millj­örðum króna ef tekið er mið af meðal­gengi tíma­bils­ins, sam­an­borið við 10,9 millj­ón­ir evra á sama tíma í fyrra.

Í upp­gjörstil­kynn­ingu frá fé­lag­inu kem­ur fram að loðnu­vertíðin í ár var mun um­fangs­meiri en í fyrra og að góð verð hafi verið á botn­fiskaf­urðum.

Tekj­ur fé­lags­ins hækkuðu nokkuð á milli ára og námu á fyrsta árs­fjórðungi 94 millj­ón­um evra, um 13,5 millj­arðar króna, sam­an­borið við 71 millj­ón evra í fyrra. Tekju­aukn­ing­in er því 31%.

Eign­ir fé­lags­ins hækkuðu um 55 millj­ón­ir evra frá ára­mót­in og námu í lok fyrsta árs­fjórðungs 851 millj­ón evra. Eigið fé í lok tíma­bils­ins var 398 millj­ón­ir evra og eig­in­fjár­hlut­fallið 46,8%. Heild­ar­eign­ir fé­lags­ins námu 851 millj­ón evra í lok tíma­bil­is­ins.

Hagnaður fyr­ir tekju­skatt nam um 32 millj­ón­um evra, sam­an­borið við 14 millj­ón­ir evra á sama tíma í fyrra. Fé­lagið greiðir um sex millj­ón­ir evra í tekju­skatt fyr­ir tíma­bilið, eða rúm­lega 860 millj­ón­ir króna.

Guðmund­ur Kristjáns­son, for­stjóri Brims, seg­ir í upp­gjörstil­kynn­ingu að starf­semi og rekst­ur fé­lags­ins hafi hafi gengið vel á fyrsta árs­fjórðungi þessa árs þrátt fyr­ir rysj­ótt veður til sjós og óvissu á mörkuðum vegna stríðs í Evr­ópu.

Tæp­ar 600 millj­ón­ir í hluta­bréf til starfs­manna

Stjórn Brims ákvað fyrr á ár­inu að verðlauna starfs­fólk sér­stak­lega, fyr­ir vel unn­in störf við óvenju­leg­ar og krefj­andi aðstæður und­an­far­in ár, með því að af­henda þeim eign­ar­hluti í fé­lag­inu. Heild­ar­fjöldi þess­ara hluta er um 4,4 millj­ón­ir og var þeim skipt á milli starfs­manna eft­ir starfs­aldri að því fram kem­ur í upp­gjörstil­kynn­ingu. Auk þess greiddi Brim launa­bón­us til að mæta tekju­skatti starfs­manna vegna hlunn­ind­anna, sam­tals eru þetta um 580 millj­ón­ir króna sem eru gjald­færðar í árs­hluta­reikn­ingn­um.

mbl.is