Undirbúa makrílvertíðina en óvíst um gang veiða

Barði NK hélt til Akureyrar í slipp að lokinni loðnuvertíð. …
Barði NK hélt til Akureyrar í slipp að lokinni loðnuvertíð. Skipið mun vera eitt þeirra sem heldur til makrílveiða í lok júnímánaðar. Ljósmynd/Sildarvinnslan

Upp­sjáv­ar­út­gerðirn­ar eru byrjaðar að und­ir­búa skip sín fyr­ir kom­andi mak­ríl­vertíð, en gert er ráð fyr­ir að vertíðin hefj­ist um 20. júní. Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðið hef­ur lagt til að há­marks­afli veiðanna verði tæp­lega 795 þúsund tonn. Bú­ist er við að út­gefið afla­mark ís­lenskra skipa verði 16,5% af heild­arkvót­an­um, eða rúm 131 þúsund tonn, sem er um 7% minna en á síðasta ári.

Í fyrra var afla­mark ís­lenskra skipa í mak­ríl um 140 þúsund tonn, en þar sem illa gekk að ná öll­um þeim afla féllu um 10 þúsund tonn niður um ára­mót­in. Útgerðirn­ar fengu þó heim­ild frá mat­vælaráðherra (þá land­búnaðar- og sjáv­ar­út­vegs­ráðherra) til að færa allt að 15% af afla­heim­ild­um í mak­ríl milli ára sem ella hefðu fallið niður. Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi höfðu farið fram á heim­ild til flutn­ings á allt að 30% heim­ilda.

Eins og 200 míl­ur hafa ít­rekað fjallað um, hef­ur magn mak­ríls í ís­lenskri lög­sögu minnkað tölu­vert á und­an­förn­um árum. Þurft hef­ur að sækja fisk­inn lang­ar leiðir, djúpt aust­ur af land­inu. Fátt bend­ir til að annað verði upp á ten­ingn­um á þessu ári.

Fátt er um skýr­ing­ar á hvarfi mak­ríls­ins, en hita­stig sjáv­ar eða magn átu get­ur ekki út­skýrt hvers vegna mak­ríll­inn finnst í minna magni en áður.

Skip Síld­ar­vinnsl­unn­ar gerð klár

Fram kem­ur á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar að und­ir­bún­ing­ur­inn sé kom­inn á fullt. Beit­ir NK er í Norðfjarðar­höfn, þar sem unnið er að hefðbundnu viðhaldi skips­ins auk þess sem það verður málað og snur­fusað. Börk­ur NK kom til Ska­gen 25. maí. Gert er ráð fyr­ir að skipið fari í slipp hjá Kar­sten­sens skipa­smíðastöðinni og fram­kvæmd verði á því árs­skoðun.

Þá fór Barði NK í slipp á Ak­ur­eyri að lok­inni loðnu­vertíð og var þar ýmsu viðhaldi sinnt. Meðal ann­ars var vél­in tek­in upp og skipið málað. Bjarni Ólafs­son AK verður sett­ur í geymslu að lokn­um þrif­um, en áhöfn­in á Bjarna mun fara yfir á Barða, sem tek­ur full­an þátt í mak­ríl­vertíðinni.

mbl.is