Svandís skipar 46 til að rýna í sjávarútveginn

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur skipað fjóra starfshópa, eina verkefnisstjórn og …
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur skipað fjóra starfshópa, eina verkefnisstjórn og eina samráðsnefnd í von um að geta fundir leiðir í átt að sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. mbl.is/Árni Sæberg

Alls hafa 46 ein­stak­ling­ar verið skipaðir af Svandísi Svavars­dótt­ur mat­vælaráðherra í fjóra starfs­hópa, eina verk­efn­is­stjórn og eina sam­ráðsnefnd og er þeim ætlað að rýna í sjáv­ar­út­veg­inn. Vinn­an sem stefnt er að er sögð í til­kynn­ingu á vef Mat­vælaráðuneyt­is­ins vera ný nálg­un „við þær fjöl­mörgu áskor­an­ir og tæki­færi sem eru í sjáv­ar­út­vegi og snerta sam­fé­lagið allt með bein­um og óbein­um hætti.“

Fjór­um starfs­hóp­um er ætlað að greina áskor­an­ir og tæki­færi í sjáv­ar­út­vegi og tengd­um grein­um ásamt því að meta þjóðhags­leg­an ávinn­ing fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­is­ins. Starfa þeir und­ir nöfn­un­um Sam­fé­lag, Aðgengi, Um­gengni og Tæki­færi.

„Í ljósi reynslu af vinnu við end­ur­skoðun á fisk­veiðilög­gjöf­inni á und­an­förn­um árum og ára­tug­um varð niðurstaða mat­vælaráðherra sú að beita þyrfti nýrri nálg­un við þær fjöl­mörgu áskor­an­ir og tæki­færi sem eru í sjáv­ar­út­vegi og snerta sam­fé­lagið allt með bein­um og óbein­um hætti. Í stað einn­ar stórr­ar póli­tískr­ar nefnd­ar er nú komið á lagg­irn­ar opnu, þverfag­legu og gagn­sæu verk­efni fjöl­margra aðila sem unnið verður með skipu­leg­um hætti á kjör­tíma­bil­inu,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Starfs­hóp­arn­ir fjór­ir eru skipaðir sam­kvæmt sátt­mála um rík­is­stjórn­ar­sam­starf Fram­sókn­ar­flokks, Sjálf­stæðis­flokks og Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs frá 28. nóv­em­ber 2021. Þar seg­ir meðal ann­ars: „Skipuð verður nefnd til að til að kort­leggja áskor­an­ir og tæki­færi í sjáv­ar­út­vegi og tengd­um grein­um og meta þjóðhags­leg­an ávinn­ing fisk­veiðistjórn­un­ar kerf­is­ins. Nefnd­inni verði falið að bera sam­an stöðuna hér og er­lend­is og leggja fram til­lög­ur til að há­marka mögu­leika Íslend­inga til frek­ari ár­ang­urs og sam­fé­lags­legr­ar sátt­ar um um­gjörð grein­ar­inn­ar. Nefnd­in fjalli einnig um hvernig hægt er að auka gagn­sæi í rekstri fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi og þá sér­stak­lega meðal stærstu fyr­ir­tækja lands­ins. Þá meti nefnd­in ár­ang­ur af at­vinnu- og byggðakvóta og strand­veiðum til að styðja við at­vinnu­líf í lands­byggðunum.“

Hóp­ar með ólík verk­efni

Sam­fé­lags­hópn­um er meðal ann­ars gert að skoða ágrein­ing um stjórn fisk­veiða og mögu­leika til sam­fé­lags­legr­ar sátt­ar, meta þjóðhags­leg­um ávinn­ingi fisk­veiðistjórn­un­ar­kerf­is­ins, fram­kvæma alþjóðleg­an sam­an­b­urð kerfa, skoða samþjöpp­un veiðiheim­ilda, veiðigjöld og skatt­spor.

Starfs­hóp­ur­inn sem starfar und­ir nafn­inu Aðgengi á að leggja mat á og koma með til­lög­ur til úr­bóta á sviði sam­keppni, verðlags­mála og aðgangs­hindr­ana, eigna­tengsla í sjáv­ar­út­vegi og óskyld­um grein­um, gagn­sæ­is í rekstri sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja auk kyn­slóðaskipta og nýliðun.

Þá á þriðji hóp­ur­inn að rýna í um­gengni um sjáv­ar­auðlind­ina með til­liti til vist­kerf­is, vernd­ar­svæði, sjón­ar­mið varúðar og afla­regl­ur, rann­sókn­ir á líf­ríki hafs­ins, vís­inda­lega ráðgjöf og orku­skipti. Jafn­framt á hóp­ur­inn að skoða vigt­un, brott­kast, eft­ir­lit og viður­lög.

Rekj­an­leiki afla, full­vinnsla, gæðamál, hringrás­ar­hag­kerfið, sta­f­ræn umbreyt­ing, hug­verka­rétt­ur, rann­sókn­ir, þróun og ný­sköp­un verður til skoðunar hjá fjórða hópn­um sem starfar und­ir nafn­inu Tæki­færi. Þessi hóp­ur er einnig skipaður til að meta orðspor Íslands og markaðssetn­ingu.

Starfar til árs­loka 2023

Sér­stök verk­efn­is­stjórn mat­vælaráðuneyt­is­ins og formanna starfs­hóp­anna fjög­urra mun funda reglu­lega um gang verk­efn­is­ins og með Sam­ráðsnefnd um sjáv­ar­út­vegs­stefnu. Í sam­ráðsnefnd­inni eru 27 ein­stak­ling­ar, þar af mat­vælaráðherra, níu stjórn­málmenn sem eru full­trú­ar sinna flokka á Alþingi, 13 full­trú­ar hags­munaaðila og fjór­ir for­menn starfs­hóp­anna. Nefnd­in á að hafa yf­ir­sýn yfir starf starfs­hóp­anna og er gert ráð fyr­ir að hún starfi til loka árs­ins 2023.

Óvenju marg­ir eru í nefnd­un­um sem Svandís hef­ur nú skipað, en ekki er um fyrstu nefnd­ina eða fyrstu rýni­vinnu í tengsl­um við sjáv­ar­út­veg­inn að ræða enda hef­ur fjöldi nefnda starfað um sjáv­ar­a­út­vegs­mál á und­an­förn­um ára­tug­um. Má meðal ann­ars nefna að í maí kom út yfir 200 blaðsíðna skýrsla á veg­um stjórn­valda um stöðu og horf­ur í ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi og fisk­eldi.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina