Björgunarsveitin Ernir á Bolungarvík hefur gengið frá kaupum á nýjum björgunarbát sem afhentur verður um mitt sumar í Noregi. Báturinn mun verða nýr Kobbi Láka, en fyrirrennarinn sökk í höfninni í vonskuveðri.
Fram kemur í tilkynningu á Facebook-síðu Ernis að báturinn sem um ræðir ber nú nafnið RS Hvaler og er í eigu norsku sjóbjörgunarsamtakanna, Redningsselskapet. „Þessi bátur er mikið skref uppá við fyrir okkur og verður aukin viðbragðsgeta hér á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.
Lengd bátsins er 12,8 metrar og er sagður útbúinn öflugum búnaði. Þá eru um borð tvær Yanmar-vélar og er báturinn drifinn áfram með þotuskrúfu. Ganghraði bátsins er vel yfir 30 sjómílur á klukkustund. Einnig er báturinn útbúinn góðum slökkvibúnaði.