Bergey VE-144 er komin í slipp í Reykjavík en þar verður ýmsu viðhaldi sinnt og skipið málað. Það er þó ekki helsta fréttin heldur fær skipið einnig nýtt nafn: Bergur VE-44.
Ástæða nafnabreytingarinnar er breyting á eignarhaldi skipsins milli dótturfélags Síldarvinnslunnar og félags í eigu dótturfélagsins, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Síldarvinnslunnar.
Síldarvinnslan festi kaup á útgerðarfélaginu Bergi ehf. í Vestmannaeyjum í gegnum dótturfélag sitt, Berg – Huginn ehf., í október árið 2020. Kaupunum fylgdi bæði aflaheimildir og togskipið Bergur VE, en það skip var selt Vísi í Grindavík án aflaheimilda í ágúst á síðasta ári. Bergur ehf. festi síðan kaup á Bergey VE sem hafði verið eigu Bergs – Hugins.
Með nafnabreytingunni eru kaupin á skipinu sögð staðfest. Vakin er þó athygli á að stjórn útgerðar skipanna verði áfram sameiginleg þrátt fyrir tilfærslu skipsins milli félaganna.
Á vef Síldarvinnslunnar er einnig sagt frá því að ísfisktogararnir Bergey VE (bráðum Bergur) og Vestmannaey VE hafa verið að fiska vel að undanförnu og lönduðu þeir báðir fullfermi á sunnudag. Bergey (Bergur) var aðallega með karfa og þorsk en Vestmannaey með þorsk, ufsa og ýsu.
Að lokinni löndun á sunnudag var Bergey undirbúin fyrir slipptöku en Vestmannaey hélt aftur til veiða og landaði aftur í gær. Uppistaðan var karfi og þorskur.